Ákveðið að rýma á Stöðvarfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði

Ákveðið hefur verið að rýma afmörkuð svæði á Stöðvarfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði vegna hættu á krapaflóðum. Skólahaldi var hætt á Stöðvarfirði á hádegi í dag.

Þegar er byrjað að hafa samband við íbúa til að rýma hús sín. Á Stöðvarfirði er horft á svæði við Einarsstaðaár, einkum þá innri en skólinn stendur milli áa.

Ekkert formlegt rýmingarkort er til af Stöðvarfirði þar sem hættumat er enn í vinnslu. Veðurstofan skipuleggur hins vegar rýminguna, sem á að taka gildi klukkan 14:00. Um er að ræða hús í nágrenni skólans sem kallað er reitur 4.

Rýmingar á Fáskrúðsfirði og Eskifirði taka gildi klukkan 16:00. Á Fáskrúðsfirði er húsið Ljósaland rýmt. Á Eskifirði efstu húsin við farveg Grjótár.

Veðurstofan er einnig að aðstæður í dreifbýli og hefur verið í samskiptum við fólk þar. Austfirðingum er almennt ráðlagt að vera sem minnst á ferðinni fram til morguns á meðan appelsínugular veðurviðvaranir í gildi, allra síst við vatnsfarvegi þar sem krapaflóð eru þekkt.

Í dag kom í ljós að snjóflóð hafði fallið á skíðasvæðinu í Oddskarði í vikunni. Það skemmdi geymsluskúr við barnalyftuna. Björgunarsveitir hafa í dag aðstoðað íbúa á rýmdum svæðum á Norðfirði, Eskifirði og Seyðisfirði við að komast heim til sín og sækja nauðþurftir. Engar frekari rýmingar eru áætlaðar þar að sinni.

Aðgerðastjórn almannavarna fundar klukkan 13:30. Nánari frétta er ekki að vænta fyrr en eftir þann fund.

Eftirtalin hús eru rýmd á Stöðvarfirði:

Borgargerði 2
Hólaland 12 & 12a
Túngata 8
Skólabraut 20
Sundlaugin á Stöðvarfirði
Fjarðarbraut 55 & 56
Hús neðan við Fjarðarbraut 56

Íbúar eru beðnir um að gefa sig fram í fjöldahjálparstöð í Gamla samkomusalnum eða hafa samband í síma 1717 ef fyrirhugaður dvalarstaður liggur fyrir. Fulltrúar aðgerðastjórnar munu fara milli húsa frá klukkan 13 og 14 og aðstoða og veita leiðbeiningar þeim er þurfa.

Einarsstaðaá um klukkan 13:00 í dag. Mynd: Björgvin Valur Guðmundsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.