Allnokkrir halda brott frá Neskaupstað meðan veðrið gengur yfir

Þó þorri bæjarbúa í Neskaupstað ætli sér að halda kyrru fyrir og takast á við hvað það sem veðurguðirnir bjóða upp á næstu sólarhringa er nokkur fjöldi sem ætlar sér burt og hefur þegar komið sér á braut það sem af er degi. Ein þeirra er Kristín Hávarðardóttir og fjölskylda hennar.

Kristín sem búið hefur lengi í bænum, en er sjálf frá Stöðvarfirði, segist úrvinda eftir lætin undanfarna daga og öryggisins vegna ætli hún á brott. Kristín veitt liðsinni í hjálparmiðstöðinni í Egilsbúð auk annars síðustu sólarhringa og svefnleysi farið að hrjá þess vegna auk þess sem öryggistilfinning er lítt til staðar að hennar sögn. Hún hefur reyndar aðrar stórar ástæður til að yfirgefa Neskaupstað að svo stöddu og það er til að halda til Fáskrúðsfjarðar þar sem aldraðir foreldar hennar búa og þurfa á hjálp að halda enda hafa þau vart komist út úr húsi sökum fannfergis í nokkra sólarhringa.

„Ég er í góðu sambandi við aldraða foreldra mína og með miklar áhyggjur af þeim og ekki síst með tilliti til þess sem koma skal í veðrinu. Þau eru orðin mjög hrædd. Sjálf bý ég á Blómsturvöllum hér ofarlega í byggðinni í Neskaupstað en reyndar undir nýjum varnarvegg. Ég bæði finn fyrir ákveðnu öryggi þess vegna en einhvern veginn líka óöryggi sem er kannski erfitt að útskýra nema vera á staðnum.“

Í kjölfar rýminga í Neskaupstað hafa margir þurft að leita til vina, ættingja eða annarra til að fá húsaskjól á öryggari stöðum og það gengið upp nánast undantekningarlaust enda velflestir að sýna samhug og vinarþel auk þess sem fjöldahjálparstöð er rekin í Egilssbúð. En samkvæmt upplýsingum Austurfréttar hafa ýmsir í dag hugsað sinn gang og viljað halda brott. Svo mikið hefur borið á þessu að aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi óskaði sérstaklega eftir því við Icelandair að stækka þá vél sem flýgur frá Egilsstöðum nú síðdegis. Við því var orðið.

Við Norðfjarðargöng eftir hádegi í dag. Háar snjóruðningsrendur liggja meðfram vegum að göngunum beggja vegna og snjór safnast fljótt fyrir ef úrkoma verður með þeim hætti sem spáð hefur verið. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.