Andrés á Alþingi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. des 2022 11:17 • Uppfært 13. des 2022 11:17
Andrés Skúlason, fyrrverandi oddviti Djúpavogshrepps, tók í síðustu viku sæti á Alþingi sem varaþingmaður. Hann notaði tækifærið til að gagnrýna áform um virkjun vindorku.
Andrés var í fimmta sæti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík norður fyrir síðustu kosningar. Hann sat í síðustu viku í stað annars brottflutts Austfirðings, Steinunnar Þóru Árnadóttur úr Neskaupstað.
Andrés tók tvisvar til máls undir liðnum störf þingsins. Báðar ræður hans tengdust orkumálum og náttúruvernd.
Í þeirri fyrri vakti Andrés máls á því að Íslendingar framleiði bæði mesta orku miðað við höfðatölu en sé einnig framarlega í sóun hennar þar sem yfir 80% fari til orkufrekrar mengandi stóriðju. Þessi sami geiri hiki ekki við að setja grænan stimpil á hvað sem er. „Og svo erum við með áform um græna orkugarða sem flokka mætti kannski frekar undir efnaverksmiðjur.“
Ráðist á verðmætustu auðlind Íslands
Hann sagði vindorkuáform hafa verið sett upp af áður óþekktri stærð án þess að nokkuð liggi fyrir um þörfina á þeim. „Allt er þetta undir grænum formerkjum þrátt fyrir að óafturkræf náttúruspjöll hafi verið sett á dagskrá með slíku vindorkuverum.
Ef markmiðið er að skapa sátt um vindorkuver hér á landi þá sýnist mér því miður stefna í algjört óefni eins og staðan er. Atgangur orkugeirans er einfaldlega of allt of mikill þegar vanmáttur sveitarfélaga er annars vegar og ekki til að dreifa haldbærum lögum eða reglum í málaflokknum.
Núna þurfum við ekki á að halda erlendu stórkapítali í bakgarðinum okkar sem nú þegar er farið að kljúfa samfélög víða um land þar sem íbúum hefur verið stillt upp við vegg á íbúafundum þar sem aðeins hlið orkugeirans er dregin upp. En fyrst og síðast er verið að ráðast hér á okkar verðmætustu auðlind með þeim grófustu iðnaðaráformum sem sett hafa verið á svið í íslenskri náttúru frá upphafi,“ sagði hann þar.
Vantar rannsóknir á íslenskri náttúru
Í seinni ræðunni lagði hann út frá ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika sem stendur yfir þessa dagana. Þar er meðal annars rætt um útrýmingu lífvera og hrun vistkerfa. Andrés benti á að veðuröfgar auk landsbrots sjávar og skriðuföll ógni menningarminjum. Andrés benti á að þær hefðu aðeins verið skráðar á 30% yfirborðs Íslands meðan nágrannalönd séu búin. Svipaða sögu sé að segja af kortlagningu jarðlaga og rannsóknum á lífríki sjávar.
Andrés spurði hvort ekki væri réttara að rannsaka fyrst hvað væri til staðar áður en ráðist yrði í óafturkræf náttúruspjöll á ósnortnum heiðarlöndum, til að mynda með vindorkuverum.
Mynd: Vinstrihreyfingin - grænt framboð