Appelsínugul viðvörun gefin út fyrir Austfirði

Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir Austfirði vegna ofankomu og síðar asahláku. Viðvörunin tekur gildi klukkan 19 í kvöld og gildir út morgundaginn.

Í nótt er spáð austan og norðaustan 10-15 m/s og talsverðri snjókomu. Þegar líður á daginn er spáð hlýnandi veðri og mikilli hláku. Áður hafði verið gefin út gul viðvörun.

Viðbragðsaðilar eru nú á fundum vegna þeirra aðgerða sem ráðast þarf í í dag til að bregðast við veðurspánni. Frekari upplýsingar fást eftir þau fundahöld sem standa fram undir hádegi.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu er dagurinn nýttur meðal annars til að byrgja glugga í þeim húsum sem skemmdust í snjóflóðinu á mánudag til að koma í veg fyrir frekari skaða.

Fimmtíu manna lið kom af höfuðborgarsvæðinu með flugi á mánudag til að veita Austfirðingum aðstoð. Hluti þess liðs er komið niður á firði og hefur meðal annars gist í varðskipinu Þór sem kom til Norðfjarðar í morgun. Aðgerðastjórar úr hópnum hafa meðal annars leyst af heimamenn þar.

Frá Neskaupstað í morgun. Mynd: Landsbjörg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.