Skip to main content

Arndís Bára: Ég hef aldrei séð svona mikinn snjó

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. mar 2023 09:09Uppfært 29. mar 2023 09:15

Arndís Bára Pétursdóttir, kennari á Eskifirði, segist Eskfirðinga vart muna eftir öðru eins fannfergi. Hún lýsir samheldni meðal bæjarbúa sem haldnir séu ónotatilfinningu eftir að rýma þurfti hluta bæjarins vegna snjóflóðahættu á mánudag.


„Ég held við séum öll með ónotatilfinningu en það hjálpast allir að, hlúa að vinum og ættingjum og reyna að gera það besta úr stöðunni. Flestir eru hjá fjölskyldu eða vinum eða þá á hótelinu eða úti á Mjóeyri,“ segir Arndís Bára.

Hús í Efridalnum voru rýmd á mánudag vegna snjóflóðahættu úr fjallinu Harðskafa. Hús neðan Dalbrautar standa á flatlendi og voru ekki rýmd. Rétt neðan við þá götu stendur leikskóli Eskfirðinga sem er lokaður á meðan hættuástand er í gildi.

Fóru að heiman á Stiga-sleðanum


Arndís Bára býr ofan götunnar og var meðal þeirra sem þurfti að yfirgefa íbúð sína. „Ég heyrði að það væri rýming og byrjaði að pakka niður dóti. Ég klæddi mig og dóttur mína vel, síðan lögðum við af stað á Stiga-sleðanum í átt að miðbænum þar sem foreldrar mínir búa.

Ég dró sleðann en hún sat á honum. Henni fannst erfitt að sjá móða móður sína draga hann upp brekkurnar með skólabækurnar á bakinu.“

Grunnskólinn var hins vegar opnaður í morgun eftir að hafa verið lokaður síðustu tvo. Þangað mætti Arndís Bára til vinnu. „Þetta hafa verið skrýtnir dagar. Skólinn opnaði dag þannig maður er fyrst núna að hitta fólk. Ég er bara búin að kenna einn tíma og ekki búin að heyra svo mikið í krökkunum nema þau voru ósátt við að missa af heimilisfræðitímanum í gær þar sem þau áttu að baka pönnukökur.

Við erum mörg af þessu rýmingarsvæði sem störfum í skólanum og ég er til dæmis með barnið mitt með mér í vinnunni því leikskólinn er lokaður. Við erum öll að hittast hér núna og síðan fær maður betri tilfinningu fyrir öllu eftir sem líður á daginn.“

Snjórinn kom á einni nóttu


Eskfirðingar hafa sjaldan séð jafn mikinn snjó í bænum, hvað þá á jafn stuttum tíma. „Ég sjálf hef aldrei séð svona mikinn snjó og fólkið mitt, sem búið hefur á Eskifirði í áratugi, man ekki eftir svona. Í götunni hjá foreldrum mínum eru skaflar á stærð mig mig. Það eru miklir skaflar, þótt ég sé ekki stór.

Þessi snjór koma á einni nóttu. Bílastæðið mitt var nýskafið niður í malbik og þegar ég vaknaði á mánudagsmorgunn var bíllinn kominn á kaf.“

Áfram er spáð mikilli snjókomu og skafrenningi. Því virðist ólíklegt að það fólk sem enn er að heiman eftir rýmingarnar á Seyðisfiðri, Norðfirði og Eskifirði á mánudag fari aftur heim fyrr en um helgina.

„Ég fæ að fara heim til að sækja muni í dag en svo verður svæðinu lokað aftur klukkan 15. Maður hugsar um hvað gerist þegar hlýnar og losnar um sjóinn. Hér er þegar búið að blása af vorskemmtun grunnskólans sem átti að vera á fimmtudag og ég býst ekki við að fá að fara heim fyrr en um helgina.“