Áskorun að taka mót stórauknum fjölda ferðamanna í sumar

Allmargir ferðaþjónustuaðilar eru sammála um að miklar áskoranir felist í þeim stóraukna fjölda ferðamanna sem koma að líkindum til með að heimsækja Austurland í vor, sumar og haust.

Ef að líkum lætur munu fleiri erlendir ferðamenn heimsækja austfirska hluta landsins með sumrinu en nokkurn tíma áður. Ekki aðeins er í boði beint áætlunarflug til Egilsstaða frá einhverjum stærsta flugvelli á meginlandi Evrópu í fyrsta sinn heldur og fjölgar þeim verulega skemmtiferðaskipunum sem hingað sækja á rösklega sama tímabili.

Síðustu tvö sumur hefur gisting á mörgum stöðum austanlands beinlínis verið uppseld með öllu um tíma og verðlag gjarnan hækkað í takt við þá eftirspurn. Það þó áður en komum skemmtiferðaskipa fjölgaði jafn mikið og næsta sumar þegar þeim fjölgar um tæplega 50 prósent frá síðasta sumri og ekki voru beinar flugferðir frá Evrópu til Austurlands í boði heldur.

Austurfrétt leitaði álits þriggja ferðaþjónustuaðila á hvort innviðir ferðaþjónustunnar austanlands ráði við þennan aukna fjölda sem líklegt er að sæki fjórðunginn heim umfram það sem verið hefur.

Díana Mjöll Sveinsdóttir, einn eiganda og framkvæmdastjóri Tanna Travel á Eskifirði, er í litlum vafa um að ferðasumarið 2023 verði áskorun fyrir flesta ferðaþjónustuaðila.

„Ég er mjög bjartsýn að eðlisfari þannig að ég tel að þetta reddist nú allt meira og minna eins og það gerir nánast alltaf. En vissulega er næsta sumar stór áskorun fyrir okkur öll í greininni en spennandi áskorun samt. Það er ljóst að einhver aukinn fjöldi kemur með beinu flugi Condor en líklega er stór hluti þeirra meira og minna að ferðast á eigin vegum og nýtir sér minna skipulagða ferðaþjónustu. Ef öll skemmtiferðaskipin koma á tíma með sína fleiri þúsund farþega um borð þá er þetta flóknara því raunin er að við fáum yfirleitt afar skamman tíma til að undirbúa ferðir með þá farþega. Stöku sinnum fáum við að vita heildarfjölda fólks um borð en það er aðeins nokkrum dögum áður en skipin koma sem við fáum upplýsingar um þann fjölda sem vill fara í skoðunarferðir með rútum. Það er æði flókið að koma til móts við slíkt.“

Í sama streng tekur Hlynur Bragason, eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Sæti í Fellabæ, sem segir að nú þegar sé sumarið meira og minna uppbókað hjá sér.

„Mér sýnist við verða að vona það besta ef fjöldinn eykst mikið umfram það sem verið hefur. Hér hjá okkur eru okkar bílar og ferðir meira og minna uppbókaðar allt sumarið og ferðir í tengslum við skemmtiferðaskipin er stór hluti þess. Við höfum litlar spurnir haft af þessum flugferðum frá Þýskalandi og ég geri nú ráð fyrir að það sé fólk sem skipuleggur sitt ferðalag sjálft. En það er lítill vafi á að þetta gæti orðið erfitt því það vantar fleiri bíla og fleiri starfsmenn ef þeim fjölgar mikið sem hingað sækja og það ekki einfalt mál að afgreiða svo vel sé.“

Auður Vala Gunnarsdóttir, eigandi Blábjargar á Borgarfirði eystra, segir sitt hótel vera of lítið til að geta sagt fyrir um hversu mikil áhrif aukinn ferðamannastraumur mun hafa.

„Ég get samt sagt að eitt er að breytast varðandi bókanir hjá okkur næsta sumar og það sú staðreynd að nú erum við að sjá, nánast í fyrsta skiptið, að fólk er panta gistingu lengur en eina nótt. Það sannarlega góð þróun því það er fólk sem vill vera hér um tíma og skoða það sem hér er að sjá og upplifa sem við viljum fá til okkar. Þetta er fólk sem vill vera hér og eyða lengri tíma og það er alveg frábært að sjá það.“

Auður segir þó líka að gæta þurfi hófs því stór hluti af aðdráttarafli Austurlands sé kyrrðin, róin og almennt vinaleg framkoma heimafólks gagnvart ferðamönnum.

„Við viljum ekki að Austurlandið verði eins og ágengnin er á stórum ferðamannastöðum sunnan- og vestanlands. Það er ekki það sem fólk leitar að þegar það kemur hingað austur.“

Töluverður fjöldi ferðafólks sækir Hengifoss heim þegar Austurlandið er heimsótt og oftar en ekki má njóta þess fallega foss án stórra hópa fólks. Það gæti verið að breytast.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.