Átta snjóflóð skráð síðustu daga á Austurlandi

Átta snjóflóð hafa orðið á Austfjörðum síðustu daga, samkvæmt gagnagrunni Veðurstofu Íslands. Snjóalög til fjalla eru víða laus.

Stærsta flóðið sem féll er skráð í Stafdal, nærri skíðasvæðinu á sunnudag. Það var af stærðinni 2, en slík flóð eru talin geta grafið manneskju.

Snjóflóðahætta er ekki óþekkt í nágrenni skíðasvæðisins og er ágætlega fylgst með henni á svæðinu. Þar hefur stundum verið gripið til aðgerða til að ýta af stað bökkum sem þykja varlegir utan opnunartíma.

Á laugardag voru skráð tvö minni flóð í Seyðisfirði, annars vegar í Bjólfsöxl og hins vegar Kverkinni í Bjólfinum. Nær er að tala um spýjur frekar en snjóflóð í þeim tilvikum. Ein slík spýja enn féll utan þéttbýlis í Seyðisfirði á sunnudag.

Á sunnudag sáust einnig tvö flóð í Norðfirði, á Hólaströnd og Stóralækjargili. Á mánudag voru greind tvö flóð í Harðskafa á Eskifirði. Öll þessi flóð eru á þekktum svæðum.

Um síðustu helgi rigndi á láglendi en snjóaði til fjalla. Víða um land hafa fallið snjóflóð síðustu daga, það stærsta á veginn milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Sérfræðingar Veðurstofunnar segja ljóst að snjóalög séu veik og því rétt fyrir fólk sem ætlar til fjalla að fara varlega því umferð getur ýtt snjó af stað á sama tíma og litlar líkur séu nú orðnar á að flóð fari af stað alfarið af náttúrunnar hendi.

Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.