Skip to main content

Átta tíma rafmagnsleysi í Breiðdal

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. des 2022 16:38Uppfært 12. des 2022 16:56

Íbúar í Breiðdal voru sumir án rafmagns í meira en átta klukkustundir á laugardag. Rarik hefur undanfarin ár unnið að því að styrkja raforkukerfið í Breiðdal en eldri hluti dreifikerfisins þar hefur verið til vandræða.


Rafmagnið fór af Breiðdal, Breiðdalsvík og Berufjarðarströndinni frá Streiti að Núpi skömmu eftir klukkan 12 á hádegi á laugardag. Samkvæmt upplýsingum frá Rarik varð fljótt ljóst að viðgerðin yrði tímafrek og var því varaflstöð sótt á Seyðisfjörð.

Með henni komst rafmagn á þorpið um klukkan fimm en hún var ekki nógu öflug til að knýja sveitirnar auk þess sem tæknilegir örðugleikar settu strik í reikninginn. Viðgerðinni lauk um klukkan átta um kvöldið og hálf níu voru allir notendur komnir með rafmagn. Þá höfðu hús í sveitinni verið án rafmagns í um átta tíma og sum náð að kólna töluvert.

Rafmagnsleysið orsakaðist af skammhlaupi í endabúnaði fyrir streng inn á spenni í aðveitustöðinni á Breiðdalsvík. Hvað gerðist verður greint nánar á næstunni en vonast er til að komið hafi verið í veg fyrir frekari truflanir.

Línum komið í jörðu

Breiðdælingar hafa undanfarin ár nokkrum sinnum lent í langvinnum rafmagnstruflunum. Samkvæmt svörum Rarik við fyrirspurnum Austurfréttar í dag má í grófum dráttum benda á að ákveðnir hlutar dreifikerfisins í kringum Breiðdal eru orðnir gamlir. Búið er að skipta um hluta þess á allra síðustu árum en samt koma upp erfiðar truflanir.

Þegar nýja stöðin var sett upp var eldri afveitustöð á Ormsstöðum í Breiðdal aflögð, en þar kom upp alvarleg bilun í desember 2014 og olli rafmagnsleysi í nánast sólarhring. Nýju stöðinni var komið upp þegar nýr strengur var lagður í jörðu milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur. Eldri lína lá um erfitt fjallaskarð sem olli vandræðum. Byrjunarörðugleikar hafa hins vegar verið með nýju aðveitustöðina vegna tæknilegra vandamála.

Breiðdalsvík fær alla jafna orku úr suðri, frá Teigarhorni í Berufirði. Þaðan liggur strengur í gegnum Berufjörðinn sjálfan og síðan með fram ströndinni. Nýlega er búið að leggja í jörðu strenginn frá Ósi að Núpi og áformað er að halda áfram inn Berufjörðinn að Kelduskógum. Truflanir hafa þó í gegnum tíðina verði nokkuð tíðar á fæðingunni frá Teigarhorni sem orsakað hefur rafmagnsleysi en þó yfirleitt í stuttan tíma.

Að auki er raflínan enn í einum streng í lofti innst í Breiðdal og í Norðurdal, meðan búið er að leggja þriggja fasa streng í jörðu utar í dalnum. Á stundum hefur þessi lína valdið vandræðum. Slíkt gerðist til dæmis í haust þegar aðskotahlutur fauk í hana og olli langtíma rafmagnsleysi í Breiðdal og stuttu straumleysi á Breiðdalsvík. Til stendur að koma þeim línum í jörðu, eins og unnið er að í dreifbýli, en ekki liggur fyrir tímasett áætlun um hvenær það verði.