Ef ekki Austurland, þá Akureyri

Íbúar á Austurlandi myndu helst kjósa að búa á Akureyri, ef þeir veldu sér annan búsetustað. Stöðfirðingar og Borgfirðingar virðast hvað ánægðastir með núverandi búsetu sína.

Þetta kemur fram í samfélagskönnun sem gerð var á vegum Austurbrúar síðasta haust en niðurstöður hennar voru birtar nýverið. Þar var fólk spurt hvort það gæti hugsað sér að búa annars staðar en það gerir í dag og þá hvar helst. Fjallað er um könnunina í Austurglugga vikunnar.

Hægt var að velja fleiri en einn stað. Flestir völdu Akureyri, 43% en 40% Fljótsdalshérað. Rúm 30% vildu búa erlendis, aðeins fleiri en merktu við Reykjavík. Minnstur áhugi virtist á að flytja í Breiðdal.

Töluverður munur var á svörum fólks úr Fjarðabyggð annars vegar og Múlaþingi hins vegar í þessu tilliti. Flestir þátttakendur úr Fjarðabyggð gátu séð fyrir sér flutning upp á Hérað í Múlaþingi, á meðan íbúar á á Héraði vildu ekki flytja niður á firði. Borgfirðingar, Egilsstaðabúar og Fljótsdælingar vilja helst vera á sínum stað.

Nokkuð þvert á niðurstöðurnar um hvar fólk gæti hugsað sér að búa, þar sem fámennustu kjarnarnir þóttu einna minnst spennandi, kom í ljós þegar spurt var út viðhorf fólks til þess staðar sem það bjó á nú. Þar reyndust Stöðfirðingar afar sáttir í sínu umhverfi, en fólk var beðið um að meta heimabæ sinn á skalanum 0 til 100.

Þátttakendur frá Stöðvarfirði gáfu sínum bæ heil 92 stig og ekki voru Borgfirðingar mikið síður ánægðir, en þeir gáfu bænum sínum 89 stig. Þá fékk dreifbýlið á Fljótsdalshéraði 85 stig á meðan færri voru sáttir í byggðakjörnunum Egilsstöðum og Fellabæ sem fengu einkunnina 78.

Það reynast svo Seyðisfjörður og Eskifjörður vera þeir kjarnar sem fengu lakasta útkomu meðal íbúa sinna. Seyðisfjörður hlaut einkunnina 63 og Eskifjörður 68.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.