Bæjarstjóri Fjarðabyggðar ekki vanhæfur að mati innviðaráðuneytis
Innviðaráðuneytið hefur úrskurðað að Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, hafi ekki verið vanhæfur til að taka þátt í að greiða atkvæði um efni ráðningarsamnings sem snerti hans eigin kjör.
Í haust gerði Ragnar Sigurðsson, oddviti minnihluta Sjálfstæðisflokks í sveitarfélaginu, athugasemdir við að Jón Björn hefði tekið þátt í meðferð og afgreiðslu vegna ráðningar og launakjara framkvæmdastjóra Fjarðabyggðar. Sendi hann innviðaráðuneytinu skeyti vegna þessa en þar á bæ var litið á erindið sem ábendingu og eða kvörtun vegna stjórnsýslu Fjarðabyggðar eins og það var orðað.
Nú hefur innviðaráðuneytið ákvarðað að Jón Björn hafi ekki verið vanhæfur í umræddu máli og það jafnvel þó umrædd ráðning hafi snert „hann persónulega og fjárhagslega hagsmuni hans.“
Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að ekki séu uppi vísbendingar um að ákvörðum bæjarstjórnar Fjarðabyggðar um ráðningu og ráðningarsamning framkvæmdastjóra sveitarfélagsins stangist á við lög eða samþykkt um stjórn Fjarðabyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 252/2022 með síðari breytingum, og því ekki tilefni til að taka lagaleg álitaefni þess til frekari umfjöllunar á grundvelli sveitarstjórnarlaga að öðru leyti en hér hefur verið gert. Er þessu máli því lokið af hálfu innviðaráðuneytisins.