Skip to main content

Bálhvasst á Austfjörðum í nótt og á morgun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. des 2022 15:14Uppfært 28. des 2022 15:15

Lögreglan á Austurlandi hefur sent frá sér viðvörun vegna spár um hvassviðri á Austfjörðum frá því í kvöld og fram á föstudagsmorgun.


Gul viðvörun fyrir svæðið var uppfærð í morgun en hún tekur gildi klukkan níu í kvöld og gildir til klukkan sex á föstudagsmorgunn.

Lögreglan sendi svo frá sér tilkynningu eftir hádegið um að á þessum tíma verði bálhvasst auk ofankomu, skafrennings og blindu. Ferðalangar eru þar beðnir um að fylgjast með með veðurspá og upplýsingum frá Vegagerðinni um færð á vegum.

Björgunarsveitir víða um land hafa staðið í ströngu yfir hátíðarnar. Slysavarnarfélagið Landsbjörg hefur því sent frá sér áréttingu til fólks á ferðinni um að huga vel að útbúnaði bíla. Vanbúnir bílar kosti ekki bara farþega sína vandræði heldur aðra sem komist ekki framhjá.

Minnt er á að vera með skóflu, hlý vetrarföt og góða skó í bílnum ef moka þurfi upp bílinn eða aðra. Þá sé gott að láta vita af ferðalögum, til dæmis skilja eftir ferðaáætlun á safetravel.is

En mikilvægast er þó að fara ekki af stað í tvísýni. „Sófinn er jú notalegri en skaflinn.“