Skip to main content

Berglind Sveinsdóttir hlýtur viðurkenningu Rótarýklúbbs Héraðsbúa

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. jún 2022 13:39Uppfært 20. jún 2022 15:15

Berglind Sveinsdóttir, formaður deildar Rauða krossins í Múlasýslu, fékk viðurkenningu Rótarýklúbbs Héraðsbúa fyrir framlag til samfélagsins á Héraði.


Rótarýklúbburinn hefur frá árinu 2000 veitt einstaklingi, pari eða félagsskap viðurkenningu á 17. júní fyrir mikilsvert framlag til samfélagsins, framúrskarandi afrek, þjónustu eða frumkvæði í einhverri mynd.

Berglind hlaut viðurkenninguna í ár fyrir framúrskarandi frammistöðu og fórnfýsi undanfarin ár. Sérstaklega er tiltekið stuðningur og hjálp við Seyðfirðinga vegna skriðufallanna í desember 2020.

Fyrst opnaði Rauði krossinn með skömmum fyrirvara fjöldahjálparmiðstöð í félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði. Seinni part föstudagsins 18. desember þurfti síðan með enn minni fyrirvara að opna aðra í Grunnskólanum á Egilsstöðum eftir að Seyðfirðingum var gert að rýma heimabæ sinn.

Í á annan mánuð, að nóttu sem degi, veitti Berglind ásamt félögum sínum sálræna áfallahjálp auk þess að reka mötuneyti á sitt hvorum staðnum fyrir íbúa og björgunarfólk. Álagið á sjálfboða Rauða krossins eystra var enn meira þar sem starfsmenn Rauða krossins frá aðalskrifstofunni í Reykjavík komust ekki austur til aðstoðar vegna Covid-faraldursins.

Berglind hefur einnig verið öflug í heilbrigðisþjónustu á Austurlandi, meðal annars setið í stjórn Hollvinasamtaka heilbrigðisþjónustu á Fljótsdalshéraði. Hún starfaði áður sem sjúkraliði hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands en vinnur nú að dægradvöl og félagslegri virkni meðal íbúa hjúkrunarheimilisins Dyngju.

Sveinn Jónsson, forseti klúbbsins, afhendir Berglindi viðurkenninguna. Mynd: Rótarýklúbbur Héraðsbúa