Skip to main content

Besta árið í sögu Eskju

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. jún 2022 16:54Uppfært 03. jún 2022 16:59

Hagnaður af rekstri Eskju á Eskifirði varð fjórir milljarðar króna eftir skatta. Endurkoma loðnunnar átti sinn þátt í bættri afkomu milli ára.


Tekjur Eskju í fyrra voru 12,6 milljarðar króna, samanborið við 8,2 milljarða árið áður, samkvæmt ársreikningi sem lagður var fram á aðalfundi félagsins í dag. Það þýddi að hagnaður félagsins, eftir skatta, varð fjórir milljarðar í fyrra samanborið við 1,4 milljarð árið 2020. Í tilkynningu segir að þetta sé besta árið í sögu félagsins.

Í afkomu félagsins munar nokkuð um að engin loðna veiddist árin 2019 og 20. Þá kemur fram að fjárfest hafi verið fyrir 1,6 milljarða í fastafjármunum og 1,4 milljarða í aflaheimildum til að styrkja starfsemina á Eskifirði.

Erna Þorsteinsdóttir, stjórnarformaður, fagnaði endurkomu loðnunnar í ávarpi sínu á aðalfundinum. Það hafi verið það sem upp úr stóð eftir tvö loðnulaus ár. Hún bendir þar á að bygging nýs frystiklefa hafi skipt sköpum til að hámarka verðmæti loðnuvertíðarinnar. „Það sýndi okkur einnig hversu mikilvæg fjárfesting í innviðum eru til að geta nýtt tækifærin sem bjóðast.“

Eskja hefur eins og aðrar útgerðir á Austfjörðum sérhæft sig í uppsjávarveiðum, á síld, kolmunna, loðnu og makríl. Þekkt er að miklar sveiflur geta verið á þeim tegundunum og því segir Erna miklu skipta að fyrirtækið sé alltaf á tánum, tilbúið að aðlagast breytingum.

Erna lýsir uppsjávarveiðunum sem einni umhverfisvænstu matvælavinnslu sem til sé. Kolefnisfótsporið sé lágt og áhrifin á lífríkið nær engin séu veiðarnar stundaðar á sjálfbæran og ábyrgan hátt.

Þess vegna sé áhyggjuefni að helstu uppsjávarstofnum Norður-Atlantshafs sé deilt með öðrum þjóðum og veitt úr þeim umfram vísindalega ráðgjöf án samkomulags. Undantekningin sé loðnustofninn sem sé gætilega stjórnað af íslenskum stjórnvöldum út frá ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Hann hafi loks komið til baka í fyra.

Erna var endurkjörin stjórnarformaður fyrirtækisins. Á fundinum í dag var stjórnarmönnum fjölgað um tvo, úr þremur í fimm. Með Ernu í aðalstjórn eru Einar Þór Sverrisson, Helga Sigurrós Valgeirsdóttir, Daði Þorsteinsson og Aðalsteinn Jónsson Þorsteinsson. Varamenn eru Ágúst Heimir Ólafsson og Sigrún Ísakdsdóttir.