Bílvelta á Fagradal
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. des 2022 11:56 • Uppfært 12. des 2022 11:56
Ökumaður slapp með minniháttar meiðsli eftir bílveltu á veginum yfir Fagradal á laugardag. Helgin var annars róleg hjá lögreglu.
Óhappið átti sér stað um miðjan dag á laugardag. Hált var á veginum og missti ökumaður stjórn á bílnum með þeim afleiðingum að hann fór út af veginum, valt og endaði á þakinu.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu slapp ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, með minniháttar meiðsli en bíllinn er mikið skemmdur.
Helgin var annars róleg hjá lögreglunni. Áfram var eftirlit með ökumönnum, einkum með ölvun, en allir virtust hafa sitt á þurru.
Lögreglan hefur annars minnt vegfarendur, bæði gangandi og akandi, á sýnileika í umferðinni nú í svartasta skammdeginu. Gangandi eru brýndir til að nota endurskinsmerki, sérstaklega að foreldrar gæti þess að börn þeirra séu sýnileg.
Fólk á farartækjum á hjólum er minnt á að hafa ljósabúnað í lagi en samkvæmt tilkynningu sem lögreglan á Austurlandi sendi frá sér í síðustu viku hefur nokkuð borið á því að ljósabúnaður sé í ólagi.