Bjartsýni í fiskeldinu austanlands þrátt fyrir þung áföll
„Þrátt fyrir þetta áfall, sem koma veirunnar er, þá horfi ég bjartsýnn til framtíðar fyrir hönd laxeldis á Austufjörðum. Félagið hefur metnaðarfull áform um vöxt á næstu árum og höfum við ekki vikið af þeirri braut,“ segir Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóri Ice Fish Farm / Laxa fiskeldis.
Nýsameinað Ice Fish Farm samanstendur af því sem áður voru fyrirtækin Laxar fiskeldi og Fiskeldi Austfjarða en sameining þessara tveggja, og einu, fiskeldisfyrirtækja á Austurland gekk í gegn fyrr í þessari viku. Tímasetningin ekki sú besta því sólarhring áður en sameining gekk í gegn bárust fréttir af því að hugsanlega hefði blóðþorraveira fundist í kvíum Fiskeldis Austfjarða í Berufirði. Samkvæmt upplýsingum frá Karli Steinari Óskarssyni, yfirmanni fiskeldis hjá Matvælastofnun kemur staðfesting á hvort svo sé raunin síðar í dag eða í fyrramálið. Þær fréttir komu í kjölfar þess að veiran hefði fundist á öllum þremur eldisstöðvum Laxa í Reyðarfirði og sá fjörður nú í hvíld.
Aðspurður út í þetta áfall segir Jens Garðar það vissulega slæmt en hjá fyrirtækinu kjósi menn að taka þessu á kinnina og horfa til lengri tíma. Ekki sé enn búið að reikna út hugsanlegt fjárhagslegt tap Ice Fish Farm af lokunum í Reyðarfirði né heldur hugsanlegri lokun í Berufirði ef sýni reynast jákvæð. Þó er bót í máli að sá fiskur sem slátra þarf við Vattarnes, ystu stöð fyrirtækisins í Reyðarfirði þar sem blóðþorri fannst fyrir tveimur vikum, sé kominn í sláturstærð og verði að mestu unnin til manneldis. Einungis minnsti fiskurinn fer í meltu.
Horfa til góðrar reynslu Færeyinga
Aðspurður hvort fyrirtækið sé á einhvern hátt tryggt fyrir slíkum áföllum segir Jens svo ekki vera. Engin tryggingafélög, hérlendis eða erlendis, dekki áföll vegna veirusýkinga í fiskeldi. Hins vegar hafi fyrirtækið gert ráðstafanir nú þegar til að fyrirbyggja eins og kostur er slík áföll í framtíðinni.
„Félagið hefur sett upp framleiðslu – og útsetningaráætlun sem miðast við að einangra enn frekar hverja kynslóð fyrir sig og takmarka alla umferð á búnaði á milli svæða. Færeyingar hafa náð góðum árangri hvað þetta varðar og við getum lært mikið af þeirra reynslu. Við búum líka svo vel að tveir af stjórnendum félagsins hafa langa reynslu og menntun þegar kemur að þessum málum og annar þeirra var m.a. til ráðgjafar fyrir færeysku ríkisstjórnina þegar að ISA olli miklum búsyfjum í Færeyjum um aldamótin síðustu. Með réttri framleiðslustýringu, ströngum reglum varðandi umferð á búnaði og bólusetningu þá getum við, líkt of Færeyingar, byggt upp öflugt og sterkt laxeldi á Austurlandi. Með þessum ráðstöfunum þá er skaðinn lágmarkaður ef veiran skítur upp kollinum aftur á afmörkuðum stað. Þrátt fyrir þetta áfall, sem koma veirunnar er, þá horfi ég bjartsýnn til framtíðar fyrir hönd laxeldis á Austufjörðum. Félagið hefur metnaðarfull áform um vöxt á næstu árum og höfum við ekki vikið af þeirri braut.“
Svokallaður blóðþorri, ISA-veiran, hefur gert drjúgan usla í fiskeldi á Austurlandi síðustu misserin en menn ætla ekki að láta það á sig fá. Mynd MAST