Skip to main content

Bjóða leiðsögn sérfræðinga um fornleifasvæðið í Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. jún 2022 11:31Uppfært 16. jún 2022 11:32

Þriðja sumarið í röð eru fornleifafræðingar komnir austur á Seyðisfjörð til frekara rannsókna í landi Fjarðar en uppgröftur þar hefur leitt sífellt fleiri forvitnlegra hluta í ljós.

Framundan þetta sumarið er að grafa í hinn forna bæjarhól en rannsóknir hafa sýnt að hann nær yfir mun stærra svæði en áður var talið. Uppgröfturinn tók, sem kunnugt er, óvænta stefnu síðsumars í fyrra þegar kumlateigur með fjórum grafreitum frá heiðnum tímum kom í ljós. Þar reyndust grafnir fjórir einstaklingar með nokkuð ríkulegum búnaði og er talið líklegt að hin látnu hafi tengst bænum Firði en þar á landnámsmaðurinn Bjólfur að hafa búið.

Töluverður almennur áhugi hefur verið á uppgreftinum og nú gefst áhugasömum tækifæri að kynnast uppgreftrinum í návígi með leiðsögn fornleifafræðinganna á staðnum. Slík leiðsögn hefst í dag klukkan 14 og verður í boði vikulega í kjölfarið á hverjum föstudegi á sama tíma.

Ragnheiður Traustadóttir, sem leitt hefur verkefnið, mun ennfremur halda fyrirlestur um rannsóknirnar fyrir áhugasama í félagsheimilinu Herðubreið þann 28. júní næstkomandi.