Björgunarsveitir að störfum á Fjarðarheiði og Möðrudalsöræfum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. des 2022 15:21 • Uppfært 19. des 2022 15:26
Búið er að loka vegunum yfir Fjarðarheiði, Vatnsskarð, Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði. Fólk er hvatt til að forðast ónauðsynleg ferðalög fram á miðvikudag. Björgunarsveitir eru farnar til aðstoðar ferðalöngum í vanda.
Vegunum var lokað upp úr klukkan hálf þrjú í dag, samkvæmt færðarkorti Vegagerðarinnar.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu eru björgunarsveitir farnar af stað til aðstoðar að minnsta kosti fimm bifreiðum sem fastar eru í blindbyl í Langadal. Þá var björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði kölluð út laust fyrir klukkan þrjú til aðstoðar bílum í vanda á leiðinni yfir Fjarðarheiði.
Gul viðvörun tók gildi fyrir Austfirði í morgun og stendur til annars kvölds. Á morgun er gul viðvörun fyrir Austurlandi að Glettingi. Þrátt fyrir að viðvörun sé ekki í gildi í dag er veðurspá svæðisins samt hundleiðinleg. Á báðum stöðum er varað við éljagangi og skafrenningi.
Eftir hádegi hefur bætt í úrkomu og vind á svæðinu. Spáð er áframhaldi á því þannig að færð á vegum eigi eftir að spillast enn frekar. Lögreglan hvetur því íbúa svæðisins til að halda sig heima, ef kostur er, þar til annað kvöld og fylgjast með veðurspám.
Mynd úr safni.