Björgunarsveitir aðstoðað fjölda ferðalanga í dag
Björgunarsveitir austanlands hafa flestar verið önnum kafnar í dag við að aðstoða fjölda fólks sem varð innlyksa í bílum sínum sökum veðurs. Verst var staðan á Fjarðarheiði þar sem erlendir ferðamenn lentu í töluverðum barningi.
Veður á stóru svæði hér austanlands var afar slæmt fram eftir degi en mikil ofankoma og hvassviðri með varð þess valdandi að Vegagerðin lokaði bæði Fjarðarheiðinni og Fagradal fyrir allri umferð snemma í morgun. Báðir vegir enn lokaðir þegar þetta er skrifað en unnið er að opnun nú þegar veðrinu hefur slotað að mestu.
Töluverðir skaflar mynduðust fljótt efst á Fjarðarheiði og var skyggni lítið sem ekkert lengi vel. Á Fagradal þurftu björgunarsveitir að sækja fólk úr einum fimm bílum sem sátu fastir eða höfðu ekið útaf. Að auki þurfti að aðstoða mann á snjóruðningstæki sem einnig lenti útaf veginum. Um ferðamenn var að ræða í meirihluta tilvika.
Þá komu björgunarsveitir einnig til hjálpar fólki á Möðrudal en þar lentu tveir fólksbílar í hörðum árekstri. Bílarnir óökuhæfir en fólkið slapp án meiðsla.