Blóðþorri staðfestur á tveimur svæðum í Berufirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. jún 2022 15:35 • Uppfært 02. jún 2022 15:36
Meinvirkt afbrigði ISA-veiru, sem veldur sjúkdóminum blóðþorra í eldislaxi, hefur verið staðfest á eldissvæðunum við Hamraborg org Svarthamarsvík í Berufirði. Öllum laxi þar verður slátrað.
Blóðþorri fannst fyrst við Ísland í nóvember á stöð Laxa fiskeldis við Gripalda í Reyðarfirði. Í apríl greindist veiran við Sigmundarhús í Reyðarfirði og í byrjun síðustu viku við Vattarnes, ystu stöðinni þar. Á föstudag bentu sýnatökur til þess að veiran væri við svæði Fiskeldis Austfjarða að Hamraborg. Það hefur nú verið staðfest sem og Svarthamsvík.
Við Hamraborg eru 890 þúsund laxar í sjö kvíum og eru þeir 2-3,2 kg að þyngd, að því er fram kemur í tilkynningu Matvælastofnunar. Við Svarthamarsvík eru um 1,1 milljón laxa í tólf kvíum. Þeir eru minni, 0,3-1,4 kg að þyngd.
Búið er að virkja aðgerðaáætlun. Hún felur það í sér að öllum laxi á eldissvæðunum tveimur verður slátrað. Þar með verður ekkert eldi í Berufirði, en hvíla þarf svæði í minnst þrjá mánuði áður en hægt er að hefja starfsemi þar aftur. „Með þessari aðgerð skal gert hið ýtrasta til að uppræta og hreinsa fjörðinn fyrir ofangreindu veirusmiti,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.
Þar er útskýrt að ISA-veiran tilheyri fjölskyldunni Orthomyxoviridae og búi yfir flestöllum eiginleikum inflúensaveira sem þekkjast hjá bæði fuglum og spendýrum. Þekkt eru tvö afbrigði ISA-veirunnar. Annað er góðkynja afbrigði sem aldrei veldur sjúkdómi eða tjóni (HPR0) og hitt er meinvirkt og veldur misalvarlegri sýkingu og afföllum (HPR-deleted).
Veiran er skaðlaus mönnum og berst ekki með fiskafurðum svo fiskar, sem slátrað er vegna hennar, er hæfir til manneldis. Þá er tekið fram í yfirlýsingu MAST að blóðþorri hefur hvergi á heimsvísu verið staðfestur í villtum laxi í sínu náttúrulega umhverfi, jafnvel þó hin meinvirka gerð veirunnar hafi verið einangruð úr slíkum fiski.
Í tilkynningu Ice Fish Farm, móðurfélags austfirska laxeldisins, til Kauphallarinnar í Osló segir að erfitt sé að gera grein fyrir afleiðingum veirunnar en slátrun nema að framleiðsla verði minni en áætlað var á þessu ári og næsta.