Blokkirnar á Seyðisfirði rýmdar aftur
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. mar 2023 14:37 • Uppfært 29. mar 2023 14:43
Veðurstofan ákvað undir klukkan tvö í dag að rýma aftur hluta af reit 14 á Seyðisfirði frá klukkan níu í kvöld. Um svipað leyti var vegurinn yfir Fjarðarheiði opnaður.
Þæfingsfærð er þó á heiðinni og leiðin mjó á köflum. Þess vegna er viðbúið að hún geti lokast með skömmum fyrirvara. Vegfarendum er ráðlagt að fara með gát.
Ferjan Norræna fór frá Seyðisfirði skömmu fyrir hádegi. Farþegar sem ætluðu í hana sátu fastir Egilsstaðamegin í morgun. Ekki verður opnað yfir Vatnsskarð til Borgarfjarðar í dag.
Þá hefur verið ákveðið að rýma aftur blokkirnar við Gilsbakka og Hamrabakka á Seyðisfirði. Íbúar þar fengu að fara heim í gær. Rýmingin tekur gildi klukkan 21 en þar á undan fara fulltrúar aðgerðastjórnar almannavarna á milli húsa til að aðstoða og leiðbeina því fólki sem þarf.
Íbúar annars beðnir um að gefa sig fram í fjöldahjálparstöð í Herðubreið eða hafa samband í síma 1717 ef fyrirhugaður dvalarstaður liggur fyrir.
Skólahaldi á Norðfirði, þar með talið í Verkmenntaskóla Austurlands, hefur aflýst út vikuna. Ekki verður leikskóli á Eskifirði á meðan rýmingu þar stendur nema elstu börnin í snillingadeildinni geta farið í grunnskólann eins og venjulega.
Mynd úr safni.