Blokkirnar á Seyðisfirði rýmdar aftur

Veðurstofan ákvað undir klukkan tvö í dag að rýma aftur hluta af reit 14 á Seyðisfirði frá klukkan níu í kvöld. Um svipað leyti var vegurinn yfir Fjarðarheiði opnaður.

Þæfingsfærð er þó á heiðinni og leiðin mjó á köflum. Þess vegna er viðbúið að hún geti lokast með skömmum fyrirvara. Vegfarendum er ráðlagt að fara með gát.

Ferjan Norræna fór frá Seyðisfirði skömmu fyrir hádegi. Farþegar sem ætluðu í hana sátu fastir Egilsstaðamegin í morgun. Ekki verður opnað yfir Vatnsskarð til Borgarfjarðar í dag.

Þá hefur verið ákveðið að rýma aftur blokkirnar við Gilsbakka og Hamrabakka á Seyðisfirði. Íbúar þar fengu að fara heim í gær. Rýmingin tekur gildi klukkan 21 en þar á undan fara fulltrúar aðgerðastjórnar almannavarna á milli húsa til að aðstoða og leiðbeina því fólki sem þarf.

Íbúar annars beðnir um að gefa sig fram í fjöldahjálparstöð í Herðubreið eða hafa samband í síma 1717 ef fyrirhugaður dvalarstaður liggur fyrir.

Skólahaldi á Norðfirði, þar með talið í Verkmenntaskóla Austurlands, hefur aflýst út vikuna. Ekki verður leikskóli á Eskifirði á meðan rýmingu þar stendur nema elstu börnin í snillingadeildinni geta farið í grunnskólann eins og venjulega.

Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.