Breyta skipulagi Selskógar í takt við kröfur nútímans
Breyta skal útivistarsvæðinu í Selskógi á Egilsstöðum á þann hátt að það fullnægi nútímakröfum og bæti notkunarmöguleika þess til útivistar og dægradvalar.
Nýtt deiliskipulag hefur verið auglýst fyrir Selskóginn sem er óumdeilanlega allra vinsælasta útivistarsvæði íbúa Egilsstaða en Selskógur er ysti hluti Egilsstaðaskógar. Gildandi deiliskipulag hefur verið við lýði síðan árið 2006 og þá strax gert ráð fyrir að svæðið yrði nýtt til útivistar og náttúruupplifunar auk þess að stuðlað væri að verndun gróðurs og menningar- og náttúruminja.
Undanfarin ár hafa komið fram sífellt fleiri óskir íbúa um aukna og fjölbreyttari möguleika í skóginum til útiveru og tómstunda og þar með talið að stækka hugsanlega svæðið yfir í Miðhúsaskóg. Á vegum Fljótsdalshéraðs hófst vinna við nýtt deiliskipulag með þeim formerkjum árið 2018 en vegna vandræða við að setja niður deiliskipulagsmörk Miðhúsaskógarmegin var ákveðið 2020 af hálfu Múlaþings að horfa eingöngu til Selskógar að sinni.
Tillaga að nýju, fersku skipulagi liggur nú fyrir og bíður samþykktar en frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rennur út í lok næsta mánaðar.
Ein þeirra hugmynda sem fyrir liggja um hvernig gera á Selskóg að enn betra útivistarsvæði en nú er. Tölvugerð mynd Múlaþing/AKS