Breytt þjóðfélag kallar á opnara hjónaball

Ákveðið hefur verið að opna Hjónaball Fáskrúðsfjarðar fyrir fólki 25 ára og eldra án þess að það sé í sambúð. Formaður nefndarinnar segir það gert í ljósi breytinga sem orðið hafi á þjóðfélaginu.

„Það eru fyrst og fremst breytingar á þjóðfélagsháttum sem ráða þessari ákvörðun. Áður fyrr hafði fólk ekki efnahagslegar forsendur til að skilja ef það hafði stofnað til fjölskyldu. Við vitum hversu algengir skilnaðir eru orðnir í dag.

Þetta hefur verið í umræðunni í nokkurn tíma. Það hefur verið óánægja hjá til dæmis fólki sem hefur verið í nefndum en síðan skilið og þá ekki lengur verið velkomið á hjónaballið. Það hefur því þótt sárt því þetta er stórviðburður fyrir marga.“

Hin ástæðan er að hér er mikið af erlendum nýbúum sem ekki taka þátt í viðburðum sem þessu, fyrr en þeir eru komnir á aðra kynslóð. Í þessu þorpi, sem mörgum öðrum, er hlutfall þeirra orðið 15-20% þannig að munar um þeirra þátttöku.

Til að halda svona ball þarf ákveðinn fjölda og síðustu ár hefur aðeins vantað upp á að fylla húsið. Það er meðal annars ástæðan fyrir að við opnum þetta meira,“ segir Eiríkur Ólafsson, formaður hjónaballsnefndarinnar í ár.

Kosið um breytingar

Fyrstu hjónaböllin á Fáskrúðsfirði voru haldin snemma á 20. öld þannig að hefðin eru orðin um 120 ára gömul. Til þessa hefur ballið aðeins verið opið fólki sem er gift eða í sambúð, ekklum eða ekkjum. Með breytingunni nú er það opið einstaklingum yfir 25 ára. Aðspurður segir Eiríkur að engin sérstök hugsun hafi verið að baki aldurstakmarkinu en bendir á yngra fólk geti mætt ef það er í sambúð eða gift.

Nefndin sem undirbýr hjónaballlið gerði í haust könnun meðal þess fólks sem sótt hefur ballið undanfarin ár á því hvort það vildi breytingar. Meira en 60% kusu þar með breytingunum sem nú eru að ganga í gegn.

Kveðjusamsæti fyrir þau sem fóru á vertíðir

Hjónaballið hefur í gegnum tíðina þróast með samfélagsbreytingum. „Þessi skemmtun var fyrst kaffisamsæti til að kveðja það fólk sem var á leið á vertíðir. Fram yfir 1960 fór flest úr sjávarplássunum hér á vertíðir á Hornafirði og suður úr.

Síðar breyttist það í dansleik fyrsta laugardag í janúar. Eftir að skuttogararnir komu þá fóru að vera tvö ár milli hátíða. Í seinni tíð hefur hjónaballið gjarnan verið aðra helgina í janúar en nú verðum við með það 28. janúar af ákveðnum ástæðum.“

Fyrsta ballið frá 2019

Eiríkur segir undirbúning hjónaballsins ganga vel en það hefur fallið niður síðustu tvö ár vegna Covid-faraldursins. „Því var frestað síðustu tvö ár en síðan hélt fráfarandi nefnd skemmtun í apríl. Hún var þá að skila af sér eftir tvær tilraunir.

Við erum tólf í nefndinni og ég er þar í fjórða sinn. Reglan er sú að hjón eru ekki saman í nefnd. Fyrst eru kosnir einstaklingar af öðru kyninu og ef einn lendir er kosinn þá er makinn ekki valinn. Áður fyrr var það þannig að nefndin eldaði sjálf og þá var hugsunin að annar aðilinn á heimilinu gæti verið heima til að gæta bús og barna.

Þetta lítur vel út. Nefndin nú er einstaklega kraftmikil, sú kraftmesta sem ég hef verið í – með fullri virðingu fyrir hinum. Það er alltaf virkilega gaman að starfa í þessum nefndum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.