Skip to main content

Búið að opna Fjarðarheiðina

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. des 2022 12:10Uppfært 21. des 2022 12:12

Samgöngur á Austurlandi eru aftur að komast í samt lag eftir fannfergi síðustu daga. Búið er að opna Möðrudalsöræfi, Fjarðarheiði og Vopnafjarðarheiði. Flug er í gangi en á eftir áætlun.


Opnað var til Vopnafjarðar, Seyðisfjarðar og norður upp úr klukkan ellefu í morgun en nokkru fyrr yfir Vatnsskarð. Vegirnir lokuðust eftir hádegi á mánudag.

Samkvæmt umferðarkorti er hálka og skafrenningur á þessum leiðum. Varað er við að mannlausir bílar séu í Langadal. Áfram er unnið að því að breikka rudda kafla á veginum.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru láglendisvegir til sveita næstir á dagskrá. Ruðningstæki eru ýmist komin af stað eða verið að kanna ástand veganna. Mokstursbíll lenti í vandræðum í Skriðdal í morgun en losnaði fljótt og á leiðin þar að verða orðin fær.

Helsta vandamálið í vegasamgöngum og birgðaflutningum til Austurlands er lokun vegna óveðurs milli Jökulsárlóns og Kirkjubæjarklausturs. Flutningabílar bíða þar sunnanvið eftir að komast austur.

Flogið var á ný milli Reykjavíkur og Egilsstaða í morgun eftir tveggja daga hlé. Það er þó á eftir áætlun og virðist von á keðjuverkandi seinkunum í dag. Flugi til Vopnafjarðar hefur hins vegar verið aflýst, þriðja daginn í röð.