Skip to main content

Búið að staðsetja heitavatnsholu nálægt Djúpavogi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. mar 2023 14:08Uppfært 14. mar 2023 14:13

Fyrirtækið HEF (áður Hitaveita Egilsstaða og Fella), sem er að öllu leyti í eigu Múlaþings, hyggst freista þess í vor að ná nægilega miklu magni af heitu vatni úr nýrri borholu nálægt byggðinni á Djúpavogi til að bæjarbúar geti notið án þess að brúka rafmagn til.

Gegnum árin hafa verið boraðar allnokkrar tilraunaholur nálægt bænum til að freista þess að finna nægilegt magn af heitu vatni en án árangurs. Lengi hefur verið vitað af álitlegu nýtingarsvæði og ný hafa nýjar rannsóknir sýnt fram á hugsanlegan fýsileika á einum stað sérstaklega. Sá staður er í landi sveitarfélagsins og skal láta reyna á hvort nægt magn vatns sé til staðar strax með vorinu samkvæmt upplýsingum frá Múlaþingi.

Ætlunin er að sækja styrk til Orkusjóðs enda markmiðið að hitaveituvæða bæinn sem er að öllu leyti kynntur með rafmagni. Hafin er vinna við að fá stóran bor á svæðið en sami borinn verður jafnframt notaður til að kanna heitavatnsmagn í Eiðaþinghá á Héraði en til stendur að veita heitu vatni til Eiða þaðan í framtíðinni.

Hitaveita er töluvert ódýrari kostur en rafmagnshitun og því töluvert undir fyrir íbúa á Djúpavogi að vinnanlegt magn finnist í vor. Mynd Múlaþing