Búið var að taka flest rýmin úr notkun vegna gruns um myglu

Búið var að taka flest rýmin í íþróttahúsi og grunnskóla Eskifjarðar, þar sem mygla hefur nú verið greind, úr notkun. Bæjarstjóri vonast til að áætlanir um viðhald liggi fyrir næstu daga.

Verkfræðistofan Efla tók sýni úr byggingunum í desember eftir að grunur hafði kviknað um að mygla væri þar eftir vatnsleka. Jafnframt voru rými þar sem grunur var um myglu tekin úr notkun, þar með talið íþróttahúsið eins og það lagði sig.

Niðurstöður Eflu bárust sveitarfélaginu Fjarðabyggð seinni partinn í gær. Þar kemur meðal annars fram að mygla er í suðausturvegg íþróttahússins en ekki greindust mygla í öðrum sýnum sem tekin voru úr húsinu.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri, segir húsið hafa verið tekið úr notkun um mánaðamótin nóvember/desember og þannig verði áfram. Íþróttakennsla var leyst eftir öðrum leiðum, svo sem utandyra þegar svo viðraði en einnig í sal skólans. Jón Björn segir unnið með skólastjórnendum að því hvernig íþróttakennslan verði leyst næstu vikurnar en vonast er til að áætlun þar um liggi fyrir síðar í dag.

Í skólahúsinu greindist mygla í fundarsal, anddyri og einni kennslustofu. Stofan var tekin úr notkun strax í haust vegna gruns um myglu en salurinn um leið og mygluprófið var tekið í desember. Um anddyrið hefur verið gengið eins og venjulega en fólk hefur þar ekki viðdvöl.

Jón Björn segir að aðeins hafi verið tekin sýni úr þeim hluta skólans sem mestur grunur var um myglu í. Vandinn er talinn bundinn við viðbyggingu skólans sem byggð var á tíunda áratugnum en skólinn sjálfur er frá árinu 1984.

Tegundir myglusveppa eru fjölmargar og áhrif þeirra á heilsu mannfólks afar misjöfn. Meðal þeirra verkefna sem liggja fyrir starfsfólki framkvæmdasviðs Fjarðabyggðar í dag er að funda með sérfræðingum Eflu til að öðlast nánari skilning á hvers eðlis myglan sé og hve umfangsmikil.

Jón Björn segir að út frá því verði metið hvaða aðgerðir þurfi að fara í til að hreinsa burtu mygluna og gera við húsin. Ákvarðanir þar um liggi vonandi fyrir á næstu dögum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.