Skip to main content

Byrjað að aflétta rýmingum í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. mar 2023 11:54Uppfært 28. mar 2023 12:36

Ákveðið hefur verið að aflétta rýmingum við og utan Bakkalækjar í Neskaupstað. Aðrir fá að vitja húsa sinna í dag en áhyggjur eru af veðurspá frá og með morgundeginum.


Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér rétt í þessu í kjölfar fundar almannavarna í morgun um stöðuna á snjóflóðahættusvæðunum á Austurlandi. Rýmingu er aflétt á svæði 18, sem fyrst og fremst götum utan við Bakkalæk í Neskaupstað.

Um 500 íbúar í Neskaupstað, Eskifirði og Seyðisfirði þurftu í gær að rýma hús sín vegna snjóflóðahættu. Íbúar á svæðum sem enn eru rýmd fá að fara og sækja vistir eða annað í hús sín og eru hvattir til að nýta daginn í dag. Til að fá að fara inn á svæðinu þurfa þeir að fara í næsta björgunarsveitarhús þar sem þeir verða skráðir og útveguð fylgd.

Vegna aðstæðna á svæðinu og slæmrar veðurspár þegar líður á morgundaginn þykir ekki óhætt að aflétta öðrum rýmingum að sinni. Snjóflóðaathugunarfólk er að störfum í fjallshlíðum þessa stundina og verður fundað síðar í dag þegar frekari gögn liggja fyrir. Niðurstaða þess verður tilkynnt þegar hún liggur fyrir.

Þetta eru húsin sem rýmingu hefur verið aflétt á:

Bakkabakki 1, 2, 3, 4a, 4b, 5, 6a, 6b, 6c, 7, 9, 10, 11, 12, 13 og 15
Bakkavegur 5
Gilsbakki 1, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 10, 12
Mýrargata 30, 32, 39 og 41
Nesbakki 2, 4 og 6
Starmýri 1