CIP fær 38 hektara lóð utan við álverið

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar mun væntanlega milli jóla og nýárs staðfesta úthlutun á 38 hektara lóð til danska fjárfestingafélagsins Copenhagen Infrastructure Partners (CIP). Á lóðinni stendur til að reisa vetnisverksmiðju sem verður þungamiðja græns orkugarðs.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, fór yfir stöðu orkugarðsins á íbúafundi sem haldinn var á Reyðarfirði í gær. Þar skýrði hann frá því að bæjarráð hefði í lok nóvember samþykkt drög að lóðaleigusamningi við CIP. Drögin hefðu síðan verið unnin frekar en bæjarstjórn taki þau fyrir á fundi þann 28. desember. Þar verður úthlutunin væntanlega staðfest.

Lóðin er í landi Hólma, utan við álverið í Reyðarfirði. Sveitarfélagið á allt land á því svæði eftir að hafa keyrt það um aldamótin samhliða álversuppbyggingunni. Í raun er um að ræða tvær lóðir, annars vegar 20 hektara og 18 hektara. Til samanburðar er álverslóðin alls 87 hektarar.

Leigan er í grunninn til 35 ára frá 1. janúar 2026 en til þess þarf CIP að hafa lokið umhverfismati fyrir lok árs 2025. Rannsóknir vegna þess hófust í ár. Hægt er að seinka afhendingu lóðarinnar til 1. janúar 2028 en þá eiga framkvæmdir í síðasta lagi að hefjast. CIP tekur við lóðunum í því ástandi sem þær eru núna og mótar þær sjálft. Lóðin snertir ekki friðlandið í Hólmanesi.

Jón Björn sagði aðspurður að gagnkvæmur skilningur væri milli aðila að ekki yrði setið lengi á lóðinni án þess að framkvæmdir færu þar í gang. Áætluð heildarfjárfesting er 20-40 milljarðar íslenskra króna.

Neðan við lóðina áformar Fjarðabyggð að byggja upp höfn þar sem afurðum orkugarðsins verður skipað út. Jón Björn sagði að gott aðgengi fyrir stór flutningaskip hefði ráðið miklu þegar CIP valdi Reyðarfjörð fyrir uppbyggingu sína. Jón Björn sagði að enn væri margt óljóst varðandi hönnun hafnarinnar, hún ylti öll á hvernig vetnisverksmiðjan yrði. Betra væri þó talið nú að gera nýja höfn frekar en nýta Mjóeyrarhöfn því til þess þyrfti til dæmis að leggja leiðslur meðfram álverinu.

Orkuöflunin alfarið á ábyrgð CIP

Íbúar sem sóttu fundinn gagnrýndi nokkuð tímasetningu fundarins, rétt fyrir jól og ákvörðun bæjarstjórnar og að boðað væri til hans með tveggja daga fyrirvara. Íbúar lýstu einnig vonbrigðum með að ekki hefðu verið fulltrúar CIP á staðnum. Jón Björn sagðist gjarnan vilja hafa fundinn á öðrum tíma en hét því að fundirnir yrðu fleiri og sagði CIP hafa fullan hug á að tala við íbúa.

Einnig var spurt út í orkuöflunina en CIP kannar möguleikana á að reisa 350 MW vindorkuver í Fljótsdal. Þau áform hafa sætt nokkurri gagnrýni og var Jón Björn meðal annars spurður að því hvort honum þætti í lagi að kalla mengun yfir nágrannasveitarfélag. Jón Björn svaraði því til að Fjarðabyggð hefði enga aðkomu að orkuöfluninni, hún væri alfarið á ábyrgð CIP. Væntanlega hefðu nágrannasveitarfélögin ekki áhuga á að Fjarðabyggð segði þeim fyrir verkum. Stóra málið væri hins vegar að fá rafmagn til framleiðslunnar.

Í hverju felst starfsemin?

Forsaga orkugarðsins er viljayfirlýsing sem Fjarðabyggð, Landsvirkjun og CIP gerðu sumarið 2021. CIP hyggst framleiða þar vetni með rafgreiningu. Vetnið er síðan bundið ammoníaki til að hægt sé að flytja það og nota sem orkugjafa. Framleiðslan telst græn sé notuð til hennar endurnýjanleg orka. Við framleiðsluna fellur til 80°C heitt vatn og súrefni. Eins er talað um rafeldsneyti þar sem það er framleitt með rafmagni.

Hugmyndin um orkugarð felst í að fá önnur félög til samstarfs um nýtingu hliðarafurða framleiðslunnar. Þeirra á meðal eru Atmonia, Síldarvinnslan og Laxar/Fiskeldi Austfjarða en síðastnefnda fyrirtækið skoðar möguleikann á að nota heita vatnið til að ala laxaseiði.

Horft inn að álveri Alcoa Fjarðaáls frá Hólmanesi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.