Orkumálinn 2024

Condor ber að bjóða farþegum aðrar leiðir á áfangastað

Þýska flugfélagið Condor, sem í vikunni aflýsti flugi sínu frá Frankfurt til Akureyrar og Egilsstaða, er skyldugt til að bjóða farþegum þann valkost að fá flug með öðru flugfélagi þannig þeir geti komið á sinn áfangastað. Í pósti til farþegar upplýsir félagið ekki um aðra valkosti en endurgreiðslu.

„Þegar flugi er aflýst þá kemur til kasta áttundu greinar Evrópureglugerðar um réttindi flugfarþega.

Í stuttu máli þá ber flugfélagi að veita farþegum þrenna valkosti: Endurgreiðslu á ferðinni, fá flugleið breytt og komast til lokaákvörðunarstaðar eins fljótt og unnt er eða breyta flugleið og komast til áfangastaðar síðar meir við fyrsta hentugleika fyrir farþegann,“ segir Ívar Halldórsson, lögfræðingur og stjórnandi evrópsku neytendaaðstoðarinnar hjá Neytendasamtökunum.

Á mánudag bárust fréttir af því að Condor væri hætt við boðað áætlunarflug sem hefjast átti um miðjan maí. Skýringar félagsins fyrir ákvörðuninni eru þær að erfiðlega hafi gengið að selja því of seint hafi verið farið af stað og gistipláss á Austurlandi þess vegna uppbókað.

Upplýsa ekki um annan valkost


Það var loks í gær sem Condor fór að hafa samband við farþega og tilkynna þeim formlega með tölvupósti að hætt hafi verið við flugið. „Flugáætlun okkar er skipulögð marga mánuði fram í tímann en stundum þurfum við að breyta henni. Fluginu sem þú áttir að fara með hefur verið aflýst,“ segir þar.

Condor kveðst vera búið að gera ráðstafanir til að endurgreiða fargjaldið að fullu inn á það greiðslukort sem notað var við kaupin innan tíu virkra daga.

Farþegar og sérfræðingar sem Austurfrétt hefur rætt við segja flugfélagið vera að bregðast skyldu sinni því það upplýsi ekki um þann möguleika að Condor hjálpi farþegum að komast á áfangastað á annan hátt. Farþegi, sem Austurfrétt ræddi við, sagðist hafa hafnað bótagreiðslunni og farið fram á Condor kæmi sér á áfangastað með öðru flugfélagi, en fengið þau svör að félaginu bæri ekki skylda til þess því það flygi ekki til Íslands.

Þessu hafnar Ívar. „Gjarnan er það þannig að þegar flugfélag aflýsir flugi að þá býður það farþegum sínum nýtt flug með sínum eigin flugvélum. En ef annað flugfélag getur komið farþegum mun fyrr á áfangastað að þá eiga farþegar mögulega rétt á því að fara með því flugfélagi. Þannig losnar flugfélag ekki undan þessari skyldu þótt það geti ekki flutt farþega með sínum eigin flugvélum.“

Fyrsta skrefið að hafna endurgreiðslunni


Félagið er ekki skyldað til að bjóða upp á beint flug en flug frá Frankfurt til Keflavíkur og þaðan í Egilsstaði teldist fullnægjandi. „Flugfélaginu ber að bjóða annan valkost eða breytingu á leið þannig farþegar komist á áfangastað, jafnvel þótt það sé með millilendingu,“ segir hann.

Ívar bendir á annan möguleika sem er að farþegar sjái sjálfir um að velja sér leið. Hægt er að færa fyrir því sterk rök að Condor sé skyldugt til að greiða farþega sem bókar sjálfur nýtt flug, gegn því að hann leggi fram reikning. Sá möguleiki er ekki lengur fyrir hendi hafi farþegi annað hvort fengið endurgreitt eða gefið það ótvírætt til kynna að hann þiggi endurgreiðsluna. Þó er ráðlegt að farþegar hafi samband við Condor áður en það er gert.

Ennfremur telur Ívar að flugfélagið beri að útvega farþega gistingu, ferðir milli flugvallar og gististaðar og máltíðir á meðan beðið er ef á þarf að halda. „Hugsun reglugerðarinnar er að vernda farþegann þannig hann verði ekki fyrir aukakostnaði. Condor ber ábyrgð á honum frá stað A til B, í þessu tilfelli frá Frankfurt til Egilsstaða. Það breytist ekki þótt flugáætlunin sé önnur.

Fyrsta skrefið er að senda skriflega kröfu á Condor um að fá annað flug. Á vef Condor eru sérstök form sem hægt er að fylla út. Þá hefur félagið upplýsingasíðu um réttindi farþega en vísað er á hann frá póstinum frá í gær. Þar er komið inn á möguleikann á öðru flugi. Ívar telur engan frekari bótarétt fyrir hendi þar sem fluginu er aflýst með meira en 14 daga fyrirvara.

Fordæmi farþegum í hag


Þetta er ekki í fyrsta sinn sem reynir á réttindi farþega né er fordæmalaust að flugfélög bjóði aðeins endurgreiðslu en upplýsi ekki um aðrar leiðir. Slíkt gerði Wow Air til að mynda í janúar 2019 þegar félagið hætti við flug til Indlands.

Þá úrskurðaði Samgöngustofa, sem framfylgir evrópsku reglugerðinni, í fyrra í máli þar sem farþegar Wizz Air höfðu keypt sér miða með öðru félagi eftir að Wizz felldi niður flug þeirra með sex mánaða fyrirvara. Samgöngustofa úrskurðaði að Wizz væri skyldugt til að greiða fargjaldið sem fólkið keypti.

Ívar sagði að enn væri ekkert mál komið til samtakanna vegna máls Condor en farþegar gætu óskað aðstoðar hjá evrópsku neytendaaðstoðinni með mál sín. Neytendasamtökin veita hana hérlends.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.