Dæmdir fyrir árás með hamri og felgulykli
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. jún 2022 14:07 • Uppfært 03. jún 2022 14:07
Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt tvo einstaklinga í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist að þriðja manninum með felgulykli og hamri.
Árásin átti sér stað um miðjan júlí í fyrra. Höfðu árásarmennirnir fengið ungan mann til að aka sér á bíl föður annars þeirra úr þeirra heimabyggð í nágrannabyggð.
Þar réðust þeir að 15 ára gömlum pilti utan við heimili hans. Annar sló hann fjórum sinnum með hamri í höfuð og líkama en hinn barði hann tvisvar með felgulyklinum. Drengurinn skrámaðist og glímdi í talsverðan tíma á eftir við höfuðverki.
Í dóminum kemur fram að mennirnir séu margsaga um tildrög ferðarinnar og nánast ekkert þekkt drenginn. Þeir játuðu hins vegar ákæruna og viðurkenndu bótaskyldu þótt þeir mótmæltu upphæðinni. Þá sýndu þeir iðrun fyrir dómi.
Annar mannanna hafði lokið sakamáli fyrir eignaspjöll, umferðarlagabrot og þjófnað með ákærufresti hjá lögreglu rúmu ári fyrir árásina en hinn hafði ekki áður sætt refsingu.
Í dóminum segir að árásin hafi verið „alvarleg, hættuleg og tilefnislaus.“ Eru mennirnir því dæmdir í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára. Þeir þurfa á skilorðstímanum að sæta sérstakri umsjón. Drengnum voru dæmdar 600.000 krónur í miskabætur en krafa hans var upp á 2,5 milljónir. Árásarmennirnir þurfa einnig að greiða samanlagt um eina milljón í málskostnað.