Skip to main content

Dæmdur fyrir að sigla á sker

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. jún 2022 10:38Uppfært 02. jún 2022 10:47

Fyrrum skipstjóri línubátsins Auðar Vésteins hefur verið dæmdur fyrir að hafa sýnt af sér vanrækslu þegar báturinn sigldi á sker skammt frá Papey haustið 2020. Skipstjórinn er ekki talinn hafa fylgst nógu vel með öðrum siglingartækjum eða merkjum utan aðaltölvu skipsins.


Um kvöldmatarleyti þann 4. október 2020 lagði Auður Vésteins úr höfn eftir löndun á Stöðvarfirði. Stefnan var tekin á miðin norður af Hornafirði. Stysta leiðin þangað er framhjá Papey, framhjá nokkrum skerjum.

Eftir um klukkustundar siglingu fóru hinir þrír skipverjarnir í koju en skipstjórinn varð einn eftir í brúnni. Rétt fyrir klukkan níu kom mikið högg á bátinn. Hafði hann þá siglt á Flyðrusker, þekktan boða austan við Papey á 8,7 sjómílna ferð.

Stórt gat kom á stefnu skipsins og byrjaði fór að flæða inn í rými. Skipstjórinn gat bakkað bátnum af skerinu en gekk jafnframt í að koma sér og áhöfninni í björgunarbát. Um kortéri eftir áreksturinn kom annar fiskibátur á vettvang og tók áhöfnina um borð. Fljótt þótti ljóst að bjarga mætti Auði. Fór því hluti áhafnarinnar aftur um borð og var báturinn síðan dreginn til hafnar á Djúpavogi, þangað sem komið var um miðnætti.

Skipstjóranum var gefið að sök að hafa siglt skipinu án þess að fylgjast nógu vel með staðsetningar- eða siglingartækjum en samkvæmt gögnum úr vöktunarkerfi Landhelgisgæslunnar hafði báturinn í meira en klukkustund verið með stefnu beint á skerið.

Skipstjórinn bar að hann hefði tekið stefnuna að skerinu en ætlað að breyta henni rétt áður en komið væri á svæðið. Hún hefði hins vegar frosið og sýnt ranga stefnu sem ekki hefði breyst fyrr en á skerið var komið. Á sama tíma hafði hann verið að lesa veffréttamiðil á skjánum sem sýndi aðra tölvu skipsins.

Í dóminum segir að „alkunna sé að forrit sem keyra á PC tölvum með Windows geti hökt eða frosið í keyrslu,“ enda finnist þess stoð í framburði annarra vitna þannig ekki þyki sýnt að ákæruvaldið hafi hnekkt þeim hluta frásagnar skipstjórans. Hins vegar hafi skipstjórinn ekki sett leiðina út í sjókort, athugað hvort straumar eða vindar bæru hann af leið eða með ratsjá eða öðrum leiðum athugað hvort báturinn væri nógu langt frá Papey eða öðrum boðum. Við bætist síðan við að netmiðillinn hafi verið á skjá varatölvunnar auk þess sem skipstjórinn hafi skömmu fyrir áreksturinn verið í síma viðtali.

Þetta þýði að þótt aðaltölvan hefði bilað hefði skipstjórinn átt að hafa nægan tíma til að taka eftir að hún væri frosið og getað breytt stefnu bátsins. Hann hafi því ekki sýnt af sér næga árverkni við siglinguna.

Skipstjórinn var einnig ákærður fyrir að hafa ekki sinnt lögformlegri skráningu tveggja skipverja sem voru nýir um borð. Það játaði skipstjórinn.

Skipstjórinn var með hreinan sakaferil og áfallalausan skipstjóraferil. Dómurinn bendir þó á að allnokkrar hafi orðið á bátnum við áreksturinn sem skapað hafi verulegan háska fyrir aðra um borð. Var skipstjórinn því dæmdur í 30 daga fangelsi, sem skilorðsbundið er til tveggja ára og greiðslu sakarkostnaðra upp á 2,1 milljón króna. Auk héraðsdómara kváðu upp dóminn rafmagnsverkfræðingur og maður með skipstjórnarréttindi.