Skip to main content

Dregur hægt úr veðri eftir hádegið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. mar 2023 10:38Uppfært 27. mar 2023 10:38

Gul veðurviðvörun fyrir spásvæðið Austfirði er í gildi til klukkan fimm í dag. Hægt dregur úr veðrinu eftir hádegi. Sums staðar hafa tugir af nýjum snjó bæst við í nótt.


Viðvörunin var í morgun framlengd um tvo tíma og gildir nú til klukkan 17. Spáð er norðaustan 10-18 m/s með talsverði snjókomu.

Samkvæmt upplýsingum frá vakt Veðurstofu Ísland dregur hægt úr veðrinu eftir hádegi. Það verður vart merkjanlegt í fyrstu en undir kvöld ætti ástandið að vera orðið mun skaplegra.

Viðbúið er að snjóflóðahætta vari áfram. Rýmingar hafa verið á Norðfirði og Seyðisfirði í morgun og minnst tvö flóð fallið á Norðfirði í morgun, þar af annað á íbúahús. Engin slys urðu á fólki.

Mesta úrkoma frá miðnætti er á Eskifirði 35 mm. en 20 mm. í Neskaupstað. Í veðri sem þessu skilar úrkoman sér þó illa í mæla. Viðbúið er að þessi úrkoma endurspeglist í 20-30 sentimetrum af nýföllnum snjó. Snjódýpt á Dalatanga í morgun mældist 60 sentímetrar.

Grip hefur verið til rýminganna í öryggisskyni. Almannavarnir hafa í morgun unnið að því að meta hættuna og ná yfirsýn sem hefur gengið ágætlega. Tilmæli eru í gildi til Austfirðinga að halda sig heima í dag.

Fært er frá Egilsstöðum til norður og út Hérað en lokað víðast annars staðar og ekki von á upplýsingum fyrr en um klukkan 16. Vegagerðin hefur þó í morgun aðstoðar björgunarfólk við að komast til Norðfjarðar.

Úr Neskaupstað í morgun. Mynd: Kristín Ágústsdóttir