Eigna-, skipulags- og umhverfisnefndinni skipt í tvennt
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. jún 2022 17:50 • Uppfært 04. jún 2022 19:25
Verkefnum eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar, löngum þekkt sem ESU-nefndin, verður skipt upp milli tveggja nefnda við breytingar á stjórnfyrirkomulagi Fjarðabyggðar. Skrifað var undir meirihlutasamkomulag Framsóknarflokks og Fjarðalista fyrir fyrsta fund bæjarstjórnar í dag.
Stærstu breytingar á nefndakerfi bæjarins eru að umhverfis- og skipulagsnefnd annars vegar og hins vegar mannvirkja- og veitunefnd taka við hlutverki ESU-nefndarinnar.
Sérstök barnarverndarnefnd heyrir nú sögunni til, samkvæmt lagabreytingum hjá ríkinu og tekur félagsmálanefnd við þeim málum sem áfram verða hjá sveitarfélaginu.
„Það var stofnað til eigna-, skipulags- og umhverfisnefndarinnar á sínum tíma til að reyna að ná utan um málaflokkinn. Hún hefur frá upphafi verið mjög umfangsmikil sem meðal annars hefur sést á að fundað hefur verið þéttar í henni en öðrum nefndum.
Það hefur áður verið rætt innan bæjarstjórnar að skipta henni upp svo fulltrúar hefðu meira svigrúm til að setja sig inn í málin. Nú þegar barnaverndarnefndirnar voru að ljúka hlutverki sínu var talið skynsamlegt að stíga þetta skref, með heildarfjölda nefnda og fulltrúa í huga.
Að auki eru umhverfismálin alltaf að fá meira vægi. Úrgangsmál verða stórmál næstu árin auk þess sem við förum að vinna eftir loftlagsstefnu okkar,“ sagði Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokks og bæjarstjóri.
Skipting embætta
Oddviti Fjarðalistans, Stefán Þor Eysteinsson, verður fyrsti formaður framkvæmda- og veitunefndarinnar en Framsóknarflokkurinn fær þar tvo fulltrúa. Fjarðalistinn á einnig formann íþrótta- og tómstundanefndar, Arndísi Báru Pétursdóttur en með henni verða tveir fulltrúar Framsóknar. Sama skipting er í félagsmálanefnd, þar er Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir formaður og síðan tveir fulltrúar Framsóknar.
Þuríður Lillý Sigurðardóttir frá Framsókn verður formaður umhverfis- og skipulagsnefndarinnar en Fjarðalistinn fær tvo fulltrúa þar. Sama hlutverkaskipting verður í fræðslunefnd sem Birgir Jónsson leiðir og hafnarstjórninni þar sem Arnfríður Eide Hafþórsdóttir verður formaður.
Pálína Margeirsdóttir frá B-lista verður formaður Menningarstofu og safnastofnunar, sem er ný nefnd í stað menningar- og nýsköpunarnefndar. Framsókn fær einn fulltrúa á móti og Fjarðalisti einn. Gert er ráð fyrir að Fjarðalistinn fái formann eftir tvo ár. Sjálfstæðisflokkur á tvo fulltrúa í öllum nefndum.
Hjördís Helga byrjar sem forseti bæjarstjórnar en lagt er upp með að flokkarnir tveir skipti því embætti með sér. Birgir Jónsson verður fyrsti varaforseti og Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, annar varaforseti.
Stefán Þór verður formaður bæjarráðs og Þuríður Lillý varaformaður. Ragnar verður fulltrúi D-lista þar.