Skip to main content

Einungis 0,6 prósent rafbílaflotans hér austanlands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. feb 2023 14:53Uppfært 02. feb 2023 15:18

Tiltölulega fáir Austfirðingar sáu ástæðu til að fjárfesta í rafbíl á nýliðnu ári þrátt fyrir töluverðar ívilnanir stjórnvalda við kaup á slíkum bílum. Þeim fjölgaði aðeins um 21 í fjórðungnum allt síðasta árið samkvæmt úttekt Austurfréttar meðan fjöldi tvinn/hybrid bifreiða hélst að mestu í stað.

Í lok árs 2021 voru alls skráðir 103 rafbílar á Austurlandi frá Vopnafirði í norðri að Djúpavogi í suðri. Samkvæmt gögnum Samgöngustofu í byrjun þessa árs voru í heild 124 skráðir rafbílar í fjórðungnum. Þeim því fjölgað um 21 sem er stórt stökk prósentulega eða rúmlega 20% fjölgun rafbíla á einu ári á svæðinu.

En í stóra samhenginu á landsvísu eru Austfirðingar töluverðir eftirbátar flestra annarra en Vestfirðinga. Alls voru, í byrjun ársins, götuskráðir 18.189 rafbílar í landinu öllu sem merkir að hlutur Austurlands í þeirri tölu er ekki nema 0,6 prósent. Á landsvísu var hlutfall seldra rafbíla 2022 tæplega 34 prósent af öllum seldum bifreiðum.