Skip to main content

Ekkert sérákvæði í samningi Múlaþings um móttöku flóttafólks

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. mar 2023 09:43Uppfært 02. mar 2023 11:09

Ekkert ákvæði er að finna í samningi Múlaþings um móttöku flóttafólks um að lögð sé sérstök áhersla á fólk frá einu landi umfram önnur. Ráðherra segir að slíkt hefði getað brotið gegn stjórnarskrá.


Þetta kemur fram í svari Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn Andrés Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, frá í vikunni.

Fyrirspurnin er lögð fram í kjölfar bókunar sveitarstjórnar Múlaþings um að leggja sérstaka áherslu á móttöku flóttafólks frá Úkraínu þegar hún samþykkti drög að samningi um móttöku flóttafólks um miðjan desember. Þessu til viðbótar bókaði fulltrúi Miðflokksins að skilningur hans væri að samningurinn væri eingöngu til að tryggja framgang flóttafólks frá Úkraínu á samningstímanum og samþykkti miðað við þann skilning.

Andrés Ingi spurði ráðherra hvort eitthvert sveitarfélag hefði sett skilyrði eða lagt sérstaka áherslu á móttöku flóttafólks af tilteknu þjóðerni við gerð þjónustusamninga um samræmda móttöku flóttafólks, hvort ráðuneytið hefði fallist á slíkar óskir og ef svo væri á hvaða lagaheimild það byggði eða félli að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Í svari Guðmundar Inga segir að Múlaþing hafi eitt sveitarfélaga viljað leggja áherslu á móttöku flóttafólks af tilteknu þjóðerni. Hins vegar sé ekki í neinum samningi ráðuneytis við sveitarfélag, þar með talið við Múlaþing, að finna slíkt skilyrði eða áherslu, hvorki af hálfu ríkisins sé sveitarfélagsins.

Mat ráðuneytisins sé að slíkt bryti gegn 65. grein stjórnarskrárinnar um að „allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Múlaþing tók í haust á móti við flóttamönnum frá Úkraínu sem fengu aðsetur á Eiðum.