Skip to main content

„Ekki hlustað á rök eða útskýringar hjá Fjarðabyggð“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. mar 2023 11:38Uppfært 07. mar 2023 11:40

Mikil óánægja hefur verið meðal skíðaunnenda í Fjarðabyggð um rúmlega tveggja árs skeið vegna þess að sveitarfélagið býður ekki upp á neinar reglubundar strætó- eða áætlunarferðir til og frá Oddsskarði þegar skíðaæfingar eiga sér stað. Reglubundnar ferðir á æfingar í öðrum íþróttagreinum eru hins vegar staðreynd.

Þetta fyrirkomulag fer mjög fyrir brjóst skíðaáhugafólks sem og áhugamanna um að fylla skíðasvæðið í Oddsskarði af lífi og fólki eins og kostur er. Ítrekað síðastliðið ár hefur stjórn Skíðafélags Fjarðabyggðar (SFF) óskað eftir farsælli lausn af hálfu sveitarfélagsins en ekki haft erindi sem erfiði.

Síðasta útspil sveitarfélagsins var að bjóða rútuferðir upp í Oddsskarð frá Eskifirði en sú rúta myndi bíða strætisvagna frá öðrum bæjarkjörnum og ferja fólk upp á skíðasvæðið virka daga klukkan 16.35. Ekki yrði hins vegar hægt að koma fólki til baka og ekki yrði mögulegt að hafa skíða- eða brettabúnað með sér í þeirri rútu né öðrum þeim strætisvögnum sem um sveitarfélagið fara. Bílarnir einfaldlega ekki búnir undir slíkan farangur farþega. Sveitarfélagið væri hins vegar reiðubúið að koma upp geymsluaðstöðu á skíðasvæðinu svo ekki þyrfti að ferja skíðabúnað á milli í hvert sinn.

Stjórn SFF dró enga fjöður yfir óánægju vegna þessarar tillögu í svarskeyti sínu:

SFF harmar að ekki sé hlustað á rök og útskýringar um að sá möguleiki að skilja búnað eftir uppi í fjalli henti engan veginn, eins og margsinnis hefur komið fram. Það er með öllu óskiljanlegt að við séum að ræða þetta aftur og aftur eftir að hafa hafnað þessum möguleikum í þrígang árið 2021, og síðasta vetur (2022) var þessu sama fyrirkomulagi hafnað. Að auki erum við búin að útskýra þetta allt fyrir starfsmönnum Fjarðabyggðar og kjörnum fulltrúum sveitarfélagsins um að þetta er ekki möguleiki sem við getum ekki nýtt okkur. Undanfarin ár höfum við verið að benda á að aðstaða Skíða- og Brettafélaganna er með öllu óboðleg uppi í Oddsskarði til að geyma búnað sem þarf til starfseminnar en ekki fengið nein svör um bætta aðstöðu en nú er allt í einu hægt bæta aðstöðuna hratt?

Stjórn SFF lagði hins vegar til að þær rútur eða strætisvagnar sem væru á ferð í Fjarðabyggð yfir skíðavertíðartímann gætu hugsanlega verið með lokaða kerru í eftirdragi þar sem hægt væri að koma skíða- eða brettabúnaði fyrir.

Ekki hefur borist svar við þeirri tillögu af hálfu sveitarfélagsins þrátt fyrir ósk um skjót viðbrögð.