Eldri borgarar lýsa bættri heilsu gegnum heilsueflingu í Fjarðabyggð
Hvorki fleiri né færri en 93 prósent þeirra sem þátt hafa tekið í sérstöku heilsueflingarverkefni í Fjarðabyggð síðan snemma í haust telja sig finna fyrir jákvæðum breytingum á líkamlegri líðan sinni. 79 prósent lýsa jákvæðum áhrifum á andlega þáttinn.
Austurfrétt fjallaði um verkefni þetta síðla síðasta sumars en það gengur undir heitinu Fjölþætt heilsuefling en fyrirtækið Janus - heilsuefling hefur staðið að því með dyggum stuðningi sveitarfélagsins. Fjarðabyggð eitt sjö sveitarfélaga í landinu sem bjóða íbúum sínum eldri en 65 ára upp á slík námskeið og í öllum tilvikum yfirgnæfandi meirihluti þátttakenda sem finna mjög jákvæð eða jákvæð áhrif á heilsufar sitt.
Verkefnið er að því leytinu sérstakt að í upphafi er heilsufar allra sem taka þátt kyrfilega mælt og skráð og öll þjálfun í kjölfarið sniðin sérstaklega að niðurstöðunum fyrir hvern og einn. Hver leggur verkefnisins tekur sex mánaði og hægt að framlengja ef fólk kýs. Segir Marín Laufey Davíðsdóttir, verkefnastjóri verkefnisins í Fjarðabyggð, ljóst að langflestir sem hófu þátttöku í sumar ætli sér að halda áfram en fyrsta legg þess er að ljúka í lok mánaðarins. Áætlað er að verkefnið standi yfir að minnsta kosti um tveggja ára skeið.