Skip to main content

Endurmeta stöðuna fyrir næstu daga

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. mar 2023 07:34Uppfært 29. mar 2023 07:42

Ágætis veðurútlit er fyrir daginn en meiri áhyggjur af veðurspá næstu daga fyrir snjóflóðahættusvæðin á Austfjörðum. Minni flóð fundust víða þegar birta tók í gær en talið er að þau hafi fallið á mánudagsmorgunn.


„Það lítur ágætlega út með veður í dag en versnar í kvöld. Það verður stöðugt endurmat í dag fyrir næstu daga,“ segir Minney Sigurðardóttir, sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofunnar.

Snjóathugunarmenn eru á ferðinni á stöðunum eftir því sem aðstæður leyfa. Að aukist yfirfara sérfræðingar Veðurstofunnar mæla í fjöllunum og veðurspár.

Í yfirliti sem Veðurstofan sendi frá sér seint í gær segir að í gær hafi eðli og útbreiðsla snjóflóðanna frá því á mánudag verið metið. Skyggni hafi þó ekki verið nógu gott til að sjá upp í fjallatoppana að upptökum flóðanna.

Útbreiddur veikleiki


Ljóst er að töluvert hefur bæst í hóp þeirra flóða sem áður var vitað af. „Við teljum að þetta séu mest flóð sem féllu á mánudagsmorgunn en sáust ekki þá vegna skyggnis. Það er útbreiddur veikleiki á svæðinu,“ bætir Minney við.

Til viðbótar við snjóflóðin við Neskaupstað úr Nesgili, Bakkagildi, Skágili þá segir að úr báðum Tröllagiljum hafi fallið snjóflóð á varnarkeilur ofan varnargarðs. Eins virðist umfangs fyrsta snjóflóðsins, sem féll meðfram varnargarði og lokaði leiðinni inn í bæinn, vera meira en áður var talið því það kom úr Klofagili og Miðstrandargili.

Lítið flóð virðist hafa fallið innarlega úr Harðskafa, trúlega snemma í óveðrinu. Í gær fundust tvö snjóflóð úr Grænafelli innst í Reyðarfirði, annað þeirra 60 metra breytt og tveggja metra þykkt, lítið flóð innan Hólmaborga og heldur stærra flóð úr Teigagerðistindar, ofan byggðarinnar á Búðareyri. Þau eru til viðbótar við stórt flóð úr Hólmatindi niður á veg sem vitað var um.

Á Seyðisfirði var vitað um flóð úr Bjólfsöxl sem eyðilagði sumarbústað rétt utan við norðanverðan kaupstaðinn. Í gær var staðfest sæmilega stórt flóð úr Strandartindi sem náði niður undir veg á Borgartanga og lítið flóð úr Jókugili.

Þá var staðfest að rafmagnsleysi innan við Brekkuþorp í Mjóafirði orsakaðist af snjóflóði sem braut staura í línunni ofan Hamarsvíkur. Ekki er talið að aðstæður leyfi viðgerð fyrr en um eða eftir helgi.

Mörg þessara flóða virðast hafa verið býsna hraðfara en fremur þunn og því eru ummerki þeirra ógreinileg í slæmum birtuskilyrðum. Tekið er við tilkynningum um snjóflóð í vegnum form á vef Veðurstofunnar.

Skólahald fellur niður á Norðfirði í dag og í leikskólanum á Eskifirði.

Mynd: Landsbjörg