Engar fréttir af nýjum flóðum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. mar 2023 07:01 • Uppfært 28. mar 2023 07:29
Engar fréttir hafa borist af nýjum snjóflóðum á Austfjörðum í nótt. Vonir standa til að hættan á flóðum minnki í dag. Söfnun upplýsinga um stöðuna er hafin. Beðið er með mokstur á Fagradal.
Sólarupprás á Austfjörðum var nú um klukkan hálf sjö. Snjóflóðaathugunar fólk er þegar komið af stað til að athuga aðstæður en samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðavakt Veðurstofunnar hafa engar nýjar upplýsingar um flóð borist enn. Viðbúið er þó að ný flóð uppgötvist í dag þegar betur sést til fjalla en í gær.
„Veðrið er þannig að það ætti að draga úr snjóflóðahættu,“ segir Magni Hreinn Jónsson, hópstjóri hjá ofanflóðavaktinni. Samhliða því sem aðstæður verða metnar verður byrjað að mæla og meta flóðin sem féllu í gær.
Byrjað er að moka veginn yfir Fjarðarheiði. Þar var stungið í gegn til að koma vistum og fólki til Seyðfirðinga sem og um borð í varðskipið Þór sem áði þar á leið sinni til Norðfjarðar og Eskifjarðar. Skipið kom til Seyðisfjarðar um hálf tíu í gær, stoppaði þar í klukkustund áður en það hélt áfram til Norðfjarðar þar sem það var rétt fyrir miðnætti. Viðkoman þar var ekki nema hálftími áður en farið var til Eskifjarðar og komið þangað um hálf þrjú í nótt. Skipið er þar í höfn.
Til stóð að þyrla Landshelgisgæslunnar ásamt þyrlusveit væri á Egilsstöðum til taks. Hún var hins vegar í nótt kölluð út til aðstoðar göngumönnum við Selfoss, að því er fram kemur í frétt Mbl.is.
Beðið er með mokstur á Fagradal meðan aðstæður eru metnar vegna snjóflóðahættu. Ekki er búist við nýjum upplýsingum þaðan fyrr en um klukkan tíu. Rýmingar eru enn í gildi í Neskaupstað, Eskifirði og Seyðisfirði. Alls þurftu um 500 manns að yfirgefa heimili sín í gær.
Almennt er ekki von á miklum upplýsingum fyrr en þá. Stöðufundur verður hjá almannavörnum klukkan níu þar sem farið verður yfir nýjustu upplýsingar. Staðan verður þó metin jafnóðum og þau berast.
Skólahald fellur niður í Neskaupstað, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og í Verkmenntaskóla Austurlands. Bæði er víða þungfært á götum og göngustígum auk þess sem rýming er enn í gildi í Neskaupstað og Eskifirði. Staðan verður metin aftur upp úr klukkan 11. Byrjað er að moka götur en viðbúið að það taki tíma. Annars staðar er skólahald með hefðbundnum hætti.
Þá er umtalsverður snjór á veginum milli Breiðdalsvíkur og Fáskrúðsfjarðar. Mokstur er hafinn en ekki búist við tíðindum af opnun fyrr en um hádegi.