Engar hreyfingar á Seyðisfirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. feb 2023 10:06 • Uppfært 15. feb 2023 10:09
Falskt merki virðist hafa komið frá mælitækjum eða hreyfingar gengið til baka sem greindust í skriðusárinu á Seyðisfirði í gær.
Ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands sendi í gær frá sér tilkynningu um að í gærmorgunn hefðu speglar á Búðarhrygg og síðar í Þófum og Nautaklauf sýnt hreyfingu. Brugðist var við með að setja skilti til að vara við umferð á göngustígnum að Búðarárfossi.
Síðar kom í ljós að hreyfing hafði orðið á GPS-merki alstöðvar og merki frá speglunum gengið til baka. Frostlyfting eða truflun í andrúmslofti virðist orsökin því engin hreyfing hefur orðið í hlíðinni.
Hjá ofanflóðadeildinni fengust í morgun þær upplýsingar að ekki hafi nánar verið greint hvað olli merkjasendingunum nema að truflun virðist hafa orðið á alstöðinni. Hreyfingin hafi aldrei komið fram á radar þannig sérfræðingar deildarinnar hafi alltaf sett fyrirvara við hvað í gangi væri. Hins vegar hafi verið ákveðið að bregðast við til öryggis og vara við ferðum meðfram Búðaránni. Atburðir gærdagsins sýni að mælitækin virki og styðji vel hvert við annað.
Samkvæmt tilkynningunni frá í gær segir að orðið hafi verið vart við minniháttar hreyfingar og rennsli úr skriðusárinu. Þær upplýsingar fengust í morgun að slíkt væri ekki óalgengt í úrkomu, eða leysingu eins og verið hefur síðustu daga þar sem hitinn á Seyðisfirði hefur nokkrum sinnum náð tveggja stafa tölu síðan á laugardag. Þetta gerist því enn sé ekki gróið um heilt í sárinu en þessar hreyfingar hafi verið algjörlega minniháttar. Engin hreyfing hefur heldust mælst síðan í gær.
Ekki hafa orðið skemmdir á vegum á Austurlandi í leysingum síðustu daga. Stórgrýti féll á veginn um Vattarnesskriður í fyrradag en það hefur verið hreinsað.