Engin flóð fallið á varnargarðana
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. mar 2023 21:38 • Uppfært 27. mar 2023 21:41
Lítill snjór virðist hafa farið af stað ofan snjóflóðavarnagarðanna í Neskaupstað. Til stendur að fara af stað með flygildi um leið og birtir í fyrramálið.
Hlynur Sveinsson er einn þeirra sem tekið hafa þátt í aðgerðum vegna snjóflóðanna sem féllu í Neskaupstað í dag. Hann stýrði flygildi sem sent var upp í brekkurnar seinni partinn.
„Það voru áhyggjur af því að varnargarðarnir væru fullir af snjóflóðum eða fjúki. Við sáum hins vegar engan snjó að ráði fyrir ofan garðana og það létti aðeins brúnina á fólki.“
Um 500 manns þurftu að yfirgefa heimili sín í Neskaupstað í dag vegna snjóflóðahættu. Í öryggisskyni voru hús næst varnargörðunum rýmd þar sem talin var hætta á að gusur gætu slests upp yfir þá ef mikið væri af snjó þar.
Þrjú flóð féllu við bæinn í morgun, þar af eitt sem fór á íbúðarhús. Fjórða flóðið fannst við flug, úr Stakgili, en það hafði ekki fallið langt niður og er fjærri görðunum. Það hefur hins vegar valdið tjóni á efsta hluta skógræktarsvæðis Norðfirðinga og áætlar Hlynur að allt að fimmtungur hans sé fallinn. „Okkur langaði að sjá hvort ákveðin gil væru búin að tæma sig. Við sáum engin önnur flóð en þessi,“ bætir hann við.
Flugskilyrði voru erfið í dag, skyggni slæmt fyrir utan að aðeins var hægt að fara með flygildið í ákveðna hæð. Hlynur vonast til að skyggni verði betra á morgun og veður skaplegra þannig hægt verði að fljúga hærra. Farið verður af stað eins fljótt og hægt er en sólarupprás er klukkan 6:30 í fyrramálið.