Enn hægt að kaupa allt það helsta inn

Áhrif tveggja daga lokana milli landshluta eru ekki enn farin að setja verulegt skarð í vöruframboð verslana á Austurlandi þótt úrvalið sé farið að minnka. Búist má við miklum önnum næstu tvo daga.

„Það er allt til og á að vera hægt að gera öll innkaup þótt vöruúrvalið sé eitthvað farið að skerðast hjá okkur í Nettó á Egilsstöðum. Það eru smá birgðavandræði en ekki stórvægileg,“ segir Heiðar Róbert Birnuson, rekstrarstjóri Nettó. Verslanirnar eru í eigu líkt og Kjörbúðirnar sem starfa um allt Austurland.

Ekki hafa komið vörusendingar að heitir getur inn í fjórðunginn síðan á föstudagskvöld. Heiðar segir að verslanir hafi almennt verið vel birgar í aðdraganda jóla, ófærðin hafi helst áhrif á framboð á ferskvöru. Á Egilsstöðum hjálpar að hafa Fellabakarí í nágrenninu auk þess sem sumt bakkelsi er bakað í verslunum.

Mjólk kemur austur frá Akureyri, sú leið var opnuð fyrir hádegið og von er á sendingu síðar í dag í verslanir.

Flutningabílar bíða við Kirkjubæjarklaustur eftir að komast austur en lokað er þaðan og að Jökulsárlóni vegna óveðurs og skemmda á vegi. Heiðar bendir á að þótt bílarnir komist austur í dag eigi enn eftir að koma vörunum í hillur verslana sem haft geti áhrif næstu daga.

„Síðustu tvo daga hefur lítið verið fyrir fólkið okkar að gera en svo kemur allt í einu sprengja á morgun þegar allt dótið kemur. Við reynum að taka á móti einhverju í kvöld og gera sem mest fyrir opnun en framundan eru tveir strembnir dagar við að koma öllu fram í hillur.

Þetta á allt að samvinnu og smá þolinmæði. Við erum þakklát starfsfólkinu okkar sem hefur verið liðlegt við að færa til vaktir eftir álagi. Við eigum við að vera vel mönnuð fyrir næstu tvo daga þegar vörubrettin fara að skila sér í hús,“ segir Heiðar sem um árabil var verslunarstjóri Nettó á Egilsstöðum.

Heiðar, til hægri, við kjötborðið í Nettó á Egilsstöðum fyrir jólin 2015.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.