Skip to main content

„Er ekki illskárra að setja upp eitt kjarnorkuver á Fljótsdalshéraði?“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. des 2022 16:46Uppfært 15. des 2022 16:51

Meirihlutinn í sveitarstjórn Múlaþings felldi í gær tillögu Helga Hlyns Ásgrímssonar, fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, um að sveitarfélagið myndi kanna hagkvæmni þess að koma upp kjarnorkuveri. Umræðan snérist hins vegar minnst um kjarnorku en þeim mun meira um vindorku enda það markmið tillögunnar.


Í texta tillögunnar segir Helgi Hlynur að uppi sé tröllvaxnar hugmyndir um uppsetningu vindorkuvera á Fljótsdalshéraði. Í því ljósi sé rétt að skoða fleiri fleti á orkuþörf, orkuöflum, orkuöryggi og orkustefnu.

„Ég er ekki sérstakur áhugamaður um rekstur kjarnorkuvera, fæddur á sjöunda áratugnum og kjarnorkuógnin mér nálæg. Ég flyt þessa tillögu til að hafa áhrif á umræðuna um hinn gríðarlega meinta orkuskort í Múlaþingi. Það eru fordæmi fyrir því að greina orkukosti því meirihlutinn taldi vert að eyða fimm milljónum í að láta verkfræðistofuna Eflu greina hvar mögulegt væri að setja upp vindmyllur auk þess sem einhver hundruð þúsunda fóru í að senda tvo fulltrúa til Danmerkur til að kynna sér vindmyllur,“ sagði Helgi Hlynur þegar hann fylgdi tillögunni eftir á fundinum.

Stórkarlaleg orkuumræða

Á Fljótsdalshéraði eru í gangi hugmyndir um tvö vindorkuver. Annars vegar allt að 500 MW vindorkugarður í landi Klaustursels sem tilheyrir Múlaþingi, hins vegar 350 MW garður í Fljótsdalshreppi. „Þeta snýst ekki bara um að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti hvað sem það kostar. Við þurfum að taka tillit til fleiri þátta.

Orkuumræðan að undanförnu hefur verið stórkarlaleg og á forsendum erlendra fyrirtækja sem sjá möguleika í rekstri vindorkuvera, sem þó ganga ekki upp fjárhagslega miðað við núverandi orkuverð á Íslandi.

Hvernig á vindorkuvæðingin að geta gengið upp eins og orkukerfið er? Á Landsvirkjun að jafna framboðið fyrir hina erlendu kaupendur með að auka framleiðslugetu vatnsaflsvirkjana sem er síðan dregið úr þegar vind hreyfir en aukin þegar lygnir og verja til þess hundruðum milljóna? Eða er planið að leggja streng til Evrópu? Er ekki illskárra að setja upp eitt kjarnorkuver á Fljótsdalshéraði þar sem náttúruvá er minnst á Íslandi?“ spurði Helgi Hlynur.

Efasemdir um vindorkuna og loftslagsbreytingar

Þröstur Jónsson úr Miðflokknum sagðist hrífast af víðsýni Helga að opna á málið. Hann líkti vindmylluáformunum við atriði úr kvikmyndinni Stellu í orlofi þar sem olíuæði rennur á Borgnesinga. Eina gagnrýnin sem hann setti fram á umræðu Helga væri að fýsileikakönnunin ætti að vera víðfeðmari og ná til fleiri orkukosta, svo sem sjávarfallavirkjana.

Bæði Þröstur og Helgi Hlynur notuðu tækifærið til að ræða möguleg umhverfisáhrif vindmylla. Þröstur lýsti áhyggjum af því að snjóhríð myndi spæna upp örplastið í spöðum vindmyllanna með tilheyrandi mengun. Helgi Hlynur sagði á móti að umhverfisáhrifin af uppsetningu og framleiðslu vindmyllanna væri slíkur að þær þyrftu að ganga í 20 ár áður en þær teldust ná kolefnishlutleysi. „Í þeim er svo gríðarlega mikið járn, steypa og sjaldgæfir málmar fyrir utan plastmengunina,“ sagði hann.

Þröstur nýtti líka tækifærið til að lýsa efasemdum sínum um þörfina á orkuskiptum og loftslagsbreytingum yfir höfuð. Sagði hann oft hafa verið meiri koltvísýring í andrúmslofti jarðarinnar og umræðuna vera rekna áfram af „gríðarlega sterkum öflum í heiminum, fjölmiðlum og fjármagnseigendum ásamt pólitíkinni sem kristallast í World Economic Forum sem ég vil kalla glæpasamtök.“ Ekki væri mark takandi á heimsendaspám enda væri íshellan enn á Norðurpólum sem samkvæmt fyrstu spám hefði átt að vera bráðnuð fyrir áratug.

Þá lýstu bæði Þröstur og Helgi Hlynur efasemdum um að sú tækni sem þyrfti í orkuskiptin væri til staðar, eða að önnur tækni væri að koma hraðar inn á sjónarsviðið, svo sem kaldur samruni, sem greint var frá í fréttum í vikunni að hefði í fyrsta sinn tekist að framkalla.

Ótímabær umræða um kjarnorku

Aðrir bæjarfulltrúar sögðust fagna umræðunni um orkumál. Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður byggðaráðs, sagði alla sammála um að rétt væri að fara varlega í virkjunarframkvæmdir, til að mynda til að tryggja að vindorka og ferðaþjónusta rækjust ekki á. Hins vegar væri líka samstaða um að það skorti orku, einkum til að ná markmiðum um íslenskra stjórnvalda um full orkuskipti fyrir árið 2040. Slíkt gæti að auki sparað Íslandi tugi milljarða í gjaldeyri.

Félagi hennar úr Sjálfstæðisflokknum, Ívar Karl Hafliðason, sagði greininguna um vindorkukosti í Múlaþingi ekki hafa verið gerða til að leyfa vindorkuvinnslu alls staðar, þvert á móti hefði hún útilokað flesta kosti. Umræðan um kjarnorkuna væri ótímabær, slíka kosti þyrfti að greina líkt og með vindorkuna þegar og ef aðilar með mótaðar hugmyndir um kjarnorkuver kæmu til sveitarfélagsins.

Íslendingar átti sig á þörfinni

Eyþór Stefánsson úr Austurlistanum var annar tveggja fulltrúa sem fóru, ásamt fleirum fulltrúum hérlendis frá, til Danmerkur um kynnisferð um vindorku. Hann sagði að þar hefði verið mótuð orkustefna um hvernig ætti að framleiða rafmagn meðan Íslendingar vissu ekki enn hvort raunverulegur orkuskortur væri til staðar.

Hann sagði vont að málin og örlög óbyggðra víðerna á Austurlandi væru í höndum einstakra landeigenda eða örsveitarfélaga, sveitarfélagði hefði ekki enn verið spurt álits á áformunum í Klausturseli. „Varhugaverðast þykir mér að allt er að gerast á forsendum vindmylluframleiðendanna, þeir stýra umræðunni.“

Helgi Hlynur sagði nær að tala um eftirspurn en þörf eftir raforku, eftirspurn sem væri óþrjótandi. Vissulega hefði vantað rafmagn til fiskimjölsverksmiðja fyrir ári en það væri að hluta því íslensk raforka væri nýtt í rafmyntargerðar. „Ef við ætlum að svara þessari eftirspurn þá þurfum við vissulega þúsundir vindmylla.“

Ferðafélagi Eyþórs úr Danmerkurferðinni, Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, sagði að áætlun um mat á umhverfisáhrifum Klausturselsvirkjunar yrði rædd á fyrsta fundi sveitarstjórnar eftir áramót. Jónína, sem situr í stjórn Sambands orkusveitarfélaga, bætti við að margt væri óráðið og órætt í vindorkumálu hérlendis.

Lítið rætt um kjarnorkuna

Hún sagðist þó sársakna umræðu um kjarnorkuver, eins og upplegg umræðunnar hefði verið. Í upphaflegu erindi sínu sagði Helgi Hlynur miklar framfarir hafa orðið í öryggi og tækni kjarnorkuveranna og þau hefði orðið marga kosti fram yfir vindmyllugarðana, til dæmis stöðuga orkuframleiðslu, lítið kolefnisfótspor og hverfandi sjónræn áhrif. Þröstur sagði að með fjórðu kynslóð kjarnorkuvera, sem væntanleg sé eftir 2040, sé hætta af geislavirkni hverfandi, úrgangurinn nánast enginn auk þess um svipað leyti geti þóríumorkuver verið orðin að veruleika. Þessi tækni kippi fótunum endanlega undan vind- og sólarorku.

Svo fór að tillaga meirihlutans um að gera ekki fýsileikakönnun á kjarnorkuframleiðslu í Múlaþingi, þar sem enginn aðili hafi sýnt áhuga, samþykkt með sex atkvæðum meirihluta. Tveir fulltrúar sátu hjá en þrír greiddu atkvæði með tillögu Hildar Þórisdóttur úr Austurlistanum um að fresta málinu meðan frekari gagna væri aflað.