Orkumálinn 2024

„Erum að benda á ósanngirni kerfisins“

Formenn þriggja félaga smábátasjómanna á Norður- og Austurlandi hafa skorað á matvælaráðherra að breyta reglum um strandveiðar þannig að tryggt verði að sjómenn um allt land geti notið góðs af þeim. Hætta er á að kvótinn klárist áður en þorskurinn gengur austur fyrir landið.

„Við erum að benda á ósanngirni kerfisins. Það hefur verið meiriháttar veiði um allt land þannig kvótinn klárast hratt, jafnvel áður en fiskurinn gengur til okkar á norðausturhorninu,“ segir Guðlaugur Birgisson, formaður Félag smábátaeigenda á Austurlandi.

Hann er einn þriggja formanna félaga smábátaeigenda af norðausturlandi sem skrifa undir erindið til ráðherra, en það er sent með stuðningi annarra svæðissamtaka sem og Landssambands smábátasjómanna. Formennirnir hafa enn engin viðbrögð fengið frá ráðherra.

Umkvörtunarefnið er ekki nýtt. Síðan reglum um strandveiðar var breytt þannig að einn kvóti er gefinn út fyrir landið allt, í stað þess að skipta honum eftir svæðum, hafa smábátasjómenn af Norður- og Austurlandi ítrekað bent á að náttúrulegar aðstæður séu þeim í óhag. „Það er nánast eins og viljað sé að við rífumst um þetta,“ segir Guðlaugur.

Minni afli þýðir færri bátar

Aflatölur ársins sýna glöggt hvað Austfirðingarnir eru ósáttir við. Í vor var gefinn út 10.000 tonna kvóti til veiðanna. Búið er að veiða um 6.700 tonn, þar af ríflega 5.900 tonn af þorski.

Strandveiðum er skipt upp í fjögur svæði. Austurfirðir tilheyra svæði C, sem er frá Þingeyjasveit austur að mörkum Múlaþings og Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Á því svæði er búið að veiða 650 tonn samanborið við 3.700 tonn á svæði A, sem nær frá Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkur. „Önnur svæði sitja betur að fiskinum. Þorskurinn verður ekki álitlegur hér fyrr en í júlí, jafnvel ekki fyrr en um miðjan þann mánuð,“ útskýrir Guðlaugur.

Þegar strandveiðikerfinu var komið á upphaflega var ákveðinn kvóti á hverju svæði. Sú hólfaskipting var afnuminn. Guðlaugur segir að finna þurfi leið til að jafna aðstöðumun strandveiðimanna aftur, annað hvort með kvóta á veiði eða daga, en gjarnan er talað um 48 daga veiðitímabil á hverju svæði. „Það virðist vanta einhvern vilja til þess,“ segir Guðlaugur.

Eins og aðrir héldu austfirskir strandveiðimenn til veiða þegar það mátti í maí en veiðin hefur verið dræm. „Þorskurinn er alltaf erfiður í maí og júní. Við sem erum syðst á svæðinu höfum reddað okkur með ufsa. Hann hefur verið himnasending því verðin á honum er góð,“ segir Guðlaugur sem gerir út frá Djúpavogi.

Þróunin birtist líka í fækkun strandveiðibáta á svæðinu. Samkvæmt vef Fiskistofu eru alls skráðir 684 bátar til veiða í ár, þar af 361 á svæði A en 102 á svæði A. Til samanburðar voru sumarið 2016 skráðir 685 bátar alls, 268 á svæði A en 148 á svæði C. Fyrir tveimur árum voru þeir 123 og 117 í fyrra. „Ég ætla ekki að segja að öll fjölgunin á svæði A komi frá okkur en bátarnir eru að færast af okkar svæði,“ segir Guðlaugur.

Minni þorskkvóti kemur ekki á óvart

Strandveiðikvótinn var líka minni en smábátasjómenn vonuðust eftir. Samkvæmt reglum eru 5,3% kvóta sett á markað Fiskistofu þar sem útgerðaraðilar geta skipt á kvóta. Uppsjávarútgerðir kaupa þar til dæmis loðnukvóta og borga fyrir hann með þorskvóta, sem smábátaútgerðir nýta sér. Vonir voru stóðu til að nokkuð kæmi inn á markaðinn í ljósi stórs loðnukvóta í vetur en svo varð ekki. „Við vorum bjartsýnir að fá góðar heimildir í strandveiðina og vorum sárir að þetta skilaði ekki meiru,“ segir Guðlaugur. Nú er beðið eftir niðurstöðum skiptimarkaðar með makríl en auglýsing um hann var birt á vef Fiskistofu í morgun.

Við þetta allt bætist ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um 6% minnkun á þorskkvóta fyrir næsta fiskveiðiár, sem fylgir í kjölfar samdráttar síðustu ára. „Ég er ekki hissa á þessari ráðgjöf. Mér hefur sýnst þetta á veiðinni hjá mér, ég er á línu á veturna og handfærum á sumrin. Þetta þýðir að enn erfiðra verður að fá heimildir í strandveiðar og fleiri potta,“ segir Guðlaugur. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.