Fært inn í allar götur á Egilsstöðum - Myndir

Í gær náðist að opna inn í allar íbúðagötur á Egilsstöðum eftir mikla snjókomu á jóladag. Bæjarverkstjóri segir að snjómokstur gangi vel en tíma taki að hreinsa bæinn almennilega. Mikill snjór er einnig í Fjarðabyggð.

„Í gær var stungið í gegnum allar götur þannig að fært væri ef sjúkrabílar, slökkvilið eða lögregla þyrftu að komast á staðinn.

Því er fært inn í allar götur, en það er ekkert meira en það. Íbúar sem þurfa að komast leiðar sinnar þurfa að leggja vinnu á sig við að moka bílana út,“ segir Sveinbjörn Hrafn Kristjánsson, bæjarverkstjóri á Egilsstöðum.

Austurfrétt hefur fregnir af bæjarbúum sem þurftu að eyða klukkustundum í að gera þokkalega fært að húsum sínum í gær eftir snjókomuna á jóladag. Sveinbjörn segir að það sé „allt á kafi í bænum.“

Miðað við það gengur snjómoksturinn þokkalega. „Það tekur tíma að moka allan bæinn. Ég reikna með að það klárist á morgun að hreinsa bæinn. Verst er að við erum að verða strand með hvert við setjum snjóinn. Það eru að verða komnir skaflar út um allan bæ sem síðan þarf að keyra í burtu með vörubílum.“

Sveinbjörn segir Egilsstaðabúa ekki óvana snjó þótt hann sé óvenjumikill nú. Það óvenjulega er hins vegar hve stutt er á milli bylja. Í vikunni fyrir jól kyngdi niður snjó, svo í fyrradag og loks er búið að gefa út gula viðvörun fyrir næstu tvo daga.

„Það eru örugglega 5-6 ár síðan ég sá síðast svona mikinn snjó. Það sem er óvenjulegt er að það kemur snjór sem fyllir bæinn, við byrjum að moka og svo kemur næsti bylur,“ segir Sveinbjörn.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, segir einnig mikinn snjó þar. Mest sé á Reyðarfirði þar sem skafið hafi úr fjallinu fyrir ofan og snjórinn sest niður í bæinn. „Það er þó nokkur snjór í þéttbýlinu, minna í sveitunum. Það byrjaði skafrenningur á hádegi á jóladag og stóð þar til í gær.“

Stofngötur voru mokaðar í gær og flestar íbúagötur gerðar færar. Áfram er haldið við moksturinn í dag sem Jón Björn segir allt kapp lagt á að klára fyrir næsta byl. Viðbúið sé að þá verði fljótt ófært því fljótt fyllist milli ruðninga þegar vind hreyfi.

Myndir frá Egilsstöðum í gær frá Unnari Erlingssyni.

Inngangur
Grilukerti
Hjalparsveitin
Kafsnjor
Kafsnjor2
Baejarstjorinn
Kleinan
Logreglubill
Lokad
Mokstur1
Mokstur3
Nielsenhus
Snjoblasari
Snjomokstur
Tehusid
Traktor1
Traktor2
Veggongu

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.