Fálkaorðan veitir aukinn kraft við ættfræðina

Cathy Ann Josephson, ættfræðingur í Vopnafirði, var í gær meðal þeirra 14 Íslendinga sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við athöfn á Bessastöðum. Cathy segir að orðan veiti henni hvatningu til að halda áfram við ættfræðina.

„Ég var bara að koma inn heima hjá mér, nýbúin að klifra yfir snjóskafl til að komast inn,“ sagði Cathy létt í bragði þegar Austurfrétt heyrði í henni í hádeginu.

„Auðvitað er alltaf frábært þegar einhver þakkar manni fyrir verkin. Ég er því mjög þakklát fyrir að fá orðuna. Það var mjög skemmtilegt og kom mér algjörlega á óvart.

Hún stoppar mig ekkert heldur gefur mér bara meiri orku. Ég held áfram að gera það sem ég hef áhuga á og það eru fjölmörg ættfræðiverkefni sem bíða,“ segir Cathy.

Hún segist hafa fengið símtal um að ákveðið hefði verið að veita henni orðuna fyrir um tveimur vikum. Hún hafi verið spurð hvort hún gæti veitt henni viðtöku en jafnframt verið beðin um að segja ekki neinum.

„Ég mátti bara segja manninum mínum þetta, því hann þurfti að koma með. Síðan fórum við að gefa fólki platástæður fyrir að við ætluðum að skreppa suður í áramótaferð, að við værum að fara að hitta fólkið okkar þar. Það var svo sem engin lygi því við heimsóttum það en ég hef bitið mig í bæði tunguna og puttana síðustu daga. Ég er því enn hálfheiðarleg kona!“

Leitaði skyldfólks

Cathy hefur í tæp 30 ár rakið saman ættir Íslendinga og Vestur-Íslendinga og þannig tengt fólk beggja vetna Atlantshafsins. Hún er sjálf uppalinn í Bandaríkjunum en af íslenskum ættum. „Afi minn fæddist á Hraunfelli í Sunnudal og amma mín í Viðvík, milli Bakkafjarðar og Strandarhafnar. Hennar fólk var vopnfirskt og föðurætt afa af Austurlandi. Ég á því fullt af skyldfólki hér eystra, einkum Vopnafirði.

Ég kom hingað fyrst ásamt fjölskyldunni árið 1994. Síðan kom ég aftur sex mánuðum síðar. Síðan hef ég búið nánast samfellt á Vopnafirði.“

Með yfir 770.000 nöfn á skrá

Cathy hefur staðið að baki Vesturfarasetri í Kaupvangi á Vopnafirði þar sem meðal annars hafa verið settar upp sýningar um vesturferðirnar. Hún hefur frá árinu 2013 starfað með hópnum Icelandic Roots sem heldur utan um ættir Vestur-Íslendinga.

„Hér á Vopnafirði er lítið félag en ég er ekki ein. Ég lofaðist fyrst til að halda utan um ættfræðina. Við vorum með Múlasýslurnar en síðan fóru að koma spurningar úr Þingeyjasýslunum, einkum Þistilfirði. Árið 2013 var ég plötuð inn í þann frábæra hóp sem Icelandic Roots er. Við erum með fólk um allt land og náum mjög vel saman. Íslendingar eru allir eitthvað skyldur og því erum við stór fjölskylda sem vinnur vel saman. Við hittumst vikulega á Zoom til að ræða stöðuna. Ég fer ekki á eftirlaun meðan ég tilheyri svona frábærum hópi,“ segir Cathy en vert er að taka fram að allt hennar ættfræðigrúsk hefur hún unnið í sjálfboðastarfi.

Þótt um 150 ár séu nú liðin frá því fjöldi Íslendinga fór vestur um haf í leit að betra lífi segir Cathy enn mikinn áhuga á samskiptum milli þessara hópa, sem með tímanum verða stöðugt fjarskyldari.

„Samskiptin milli fólks á Íslandi og í Vesturheimi minnkaðu á tímabili vegna tungumálaörðugleika. Vestur-Íslendingar lærðu ekki íslensku og Íslendingar lærðu takmarkaða ensku. Þess vegna gátu þessir hópar ekki talað saman eða skrifast á. Internetið og enskukennsla hafa hjálpað til við að styrkja böndin.

Icelandic Roots tengir saman fólk báðu megin frá. Hjá Íslendingabók er unnin ákveðin vinna en hennar áhersla er á íslensk ættartengsl. Við erum með skrá um 772.000 manns, bæði hér og vestra. Við vorum til að mynda með mann sem tók að sér að fara yfir allar vesturfaraskrárnar og staðfesta fólkið. Það tók hann fimm ár. Eftir eru örfáir einstaklingar sem erfitt er að hafa upp á, svo sem Jón Jónsson. Ég held þetta sé allt saman mjög jákvætt.“

Frá athöfninni á Bessastöðum í gær. Cathy er þriðja frá hægri. Mynd: Forsetaembættið


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.