Skip to main content

Fáskrúðsfirðingar tóku ríkan þátt í hönnun nýs björgunarbáts

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. feb 2023 10:05Uppfært 17. feb 2023 10:05

Björgunarsveitin Geisli á Fáskrúðsfirði fékk síðasta haust nýjan björgunarbát frá Bátasmiðjunni Rafnar. Félagar úr sveitinni komu töluvert að hönnun og byggingu bátsins.


Hafdís heitir nýja fleyið og er, eins og fyrri bátur sveitarinnar, framleiddur af íslenska fyrirtækinu Rafnar en er smíðaður í Noregi.

Sveitin hafði áður unnið með bátasmiðjunni og hafði sínar séróskir að þessu sinni, aðallega varðandi skjól á þilfarinu.

„Við þekktum bátinn auðvitað af reynslu, því skrokkur bátsins er hinn sami og var á gamla bátnum okkar, Óðni. Þetta hefst eiginlega á því að við forvitnumst um hvort hægt væri að stækka stýrishúsið á gamla Óðni,“ segir Óskar Þór Guðmundsson, formaður björgunarbátadeildar Geisla í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

„Það samtal okkar við Rafnarsfólk leiðir svo til þess að þeir leggja til að við kaupum af þeim glænýjan bát. Eftir að hafa tekið gott samtal okkar á milli og kannað möguleika á stuðningi fólks og fyrirtækja, varð úr að við létum vaða. Við vildum þó hafa framdekkið yfirbyggt væri þess kostur, auk svona lítillegra annarra breytinga og það varð úr.

Við fengum svo bátinn síðasta haust og þökk sé góðum stuðningi, þá eigum við þennan nýja bát skuldlaust. Við erum eiginlega viss um að við getum með ágætum hætti tekið á móti áhöfnum flestra íslenskra fiskiskipa ef á þarf að halda.“

Hafdís á siglingu. Mynd: Björgunarsveitin Geisli

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.