Skip to main content

Ferðalangar beðnir um að huga að færð og veðri

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. mar 2023 09:03Uppfært 21. mar 2023 09:59

Veginum yfir Fjarðarheiði var lokað í morgun. Ferðalangar eru beðnir að huga að færð og veðri. Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir Austfirði.


Þetta kemur fram í yfirliti Vegagerðarinnar frá í morgun. Veginum yfir Fjarðarheiði var lokað fyrir um klukkustund en í yfirlitinu var varað við að veður gæti spillt færð bæði þar og á Vatnsskarði.

Gul viðvörun var gefin út fyrir Austfirði nú á tíunda tímanum. Hún tók strax gildi og stendur í sólarhring. Búist er við norðaustan 15-20 m/s og víða snjókomu sem leiðir til versnandi skyggnis og erfiðra akstursskilyrða, einkum á fjallvegum.

Gular viðvaranir eru í gildi vegna hvassviðris fyrir Suðurland, einum frá Öræfum til Eyjafjalla. Þrátt fyrir vorjafndægur í gær er engan vegin vorlegt um að litast eystra, snjór, kalt og hvasst.

Áfram er austan eða norðaustan vindum næstu daga og viðbúið að hvessi heldur eystra í kvöld. Spáð er 13-18 m/s í kvöld og nótt og 13-20 m/s á fjörðum í fyrramálið. Áfram verður stinningskaldi út vikuna. Frostið verður 0-8 stig, minnst út við ströndina.