Orkumálinn 2024

Fimmtán ár frá gangsetningu Fljótsdalsstöðvar

Fimmtán ár eru í dag liðin frá því að Fljótsdalsstöð var gangsett. Reksturinn hefur alla tíð gengið mjög vel og skilar hún meira afli en upphaflega var ráð fyrir gert.

Í gegnum sumarið 2007 stóðu yfir prófanir á vélum stöðvarinnar en hún var loks keyrð upp á fullu afli og tengd við flutningskerfi þann 30. nóvember 2007. Athöfnin sjálf fór nokkuð úr skorðum, vegna veðurs komust um 100 gestir sem ætluðu að vera viðstaddir ekki austur heldur fylgdust með gegnum fjarfundabúnað frá Hótel Nordica í Reykjavík. Þaðan voru skipanirnar gefnar um að ræsa vélarnar.

Þetta byrjunarvandamál gaf þó ekki tóninn fyrir reksturinn sem að sögn Gunnars Guðna Tómassonar, framkvæmdastjóra vatnsafls hjá Landsvirkjun, hefur gengið mjög vel. „Það hefur ekki verið neitt óeðlilegt viðhald. Vegna aurs í vatninu og mikils þrýstings út af fallhæðinni áttum við von á talsverði sliti en það hefur jafnvel verið minna en við áttum von á.“

Fljótsdalsstöð er aflstöð Kárahnjúkavirkjunar, framleiðir rafmagn úr vatni sem veitt er niður í Fljótsdal frá annars vegar lónum við Kárahnjúka þar sem Hálslón er stærst, hins vegar úr miðlunarlónum Jökulsár og Kelduár í Fljótsdal. Þar starfa 14 starfsmenn á vegum Landsvirkjunar auk verktaka í mötuneyti og þrifum. „Það eru alltaf tveir starfsmenn á vakt í stöðinni. Þetta er mikill úrvalshópur og síðan hefur samstarfið við Alcoa Fjarðaál, sem kaupir orkuna, gengið vel.“

Stöðin hefur einnig framleitt heldur meira rafmagn en reiknað var með. „Áætlanir gerðu að einhverju leyti fyrir meira vatni vegna hlýnandi veðurfari en það hefur verið meira en við bjuggumst við. Framleiðslan er því um 5000 GWh á ári, sem er ívið hærra en við reiknuðum með,“ segir Gunnar Guðni.

Ekki hefur veitt af. Vegna lágrar stöðu í miðlunarlónum á Suðurlandi síðasta vetur var Fljótsdalsstöð keyrð á fullum afköstum og rafmagn flutt eins og hægt var til suðurs. Þótt vatnsbúskapurinn nú sé mun hagstæðari syðra en stöðin enn keyrð á fullu afli og flutt frá henni því raforkuframleiðsla á Suðurlandi annar ekki eftirspurn þar. „Kerfið er fullnýtt og ekkert aflögu. Í raun er umframeftirspurn.“

Í fyrra var rafmagn til notenda með samninga um skerðanlega raforku, svo sem fiskimjölsverksmiðja, skert. Gunnar Guðni vonast til þess að það gerist ekki aftur í vetur. Það sé þó ekki útilokað.

Þótt nóg vatn sé nú til staðar eru ekki alls staðar nógu öflugar vélar til að framleiða það afl sem hægt er. Gunnar Guðni segir að með nýrri rammaáætlun og breyttum lögum um röðum virkjanakostum frá Alþingi í sumar hafi verið brugðist við. Þannig þurfa stækkanir á núverandi virkjunum, sem ekki fela í sér teljandi umhverfisáhrif, ekki lengur að fara í gegnum rammaáætlun. Það þýðir að Landsvirkjun getur nú ráðist í stækkun Sigölduvirkjunar en Gunnar Guðni bendir á að það taki einhver ár.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.