Skip to main content

Fjöldi athugasemda Ríkisendurskoðunar vegna stjórnsýslu og eftirlits með fiskeldi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. feb 2023 14:22Uppfært 06. feb 2023 14:52

Hvorki stofnanir, ráðuneyti né hagmunaaðilar sjálfir eru fyllilega sátt við stöðu mála og þann ramma sem stjórnsýslu og skipulagi sjókvíaeldis hefur verið markaður. Samþjöppun eignarhalds, stefnulaus uppbygging og rekstur sjókvía á svæðum sem vinna gegn því að auðlindin skili hámarks ávinningi fyrir ríkissjóð hefur fest sig í sessi án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda.

Svo hljóða tvær af fjölmörgum alvarlegum athugasemdum sem ný skýrsla Ríkisendurskoðunar leiðir í ljós hvað varðar lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirliti í fiskeldi. Fiskeldi er, eins og kunnugt er, orðinn stór en jafnframt umdeildur atvinnuvegur á Austurlandi og Vestfjörðum og frekari umsvif framundan í báðum landshlutum.

Finnur Ríkisendurskoðun meðal annars að því að sami ráðherra og lögsetti að sjávarútvegsráðherra skyldi ákveða skiptingu eldissvæða á sínum tíma nýtti sér svo aldrei þá heimild þegar fyrstu lögin um fiskeldi urðu að veruleika 2008. Þar um að ræða Einar K. Guðfinnsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, en að þingferlinum loknum tók hann við sem formaður Landssambands fiskeldisstöðva. Það varð til þess að rekstraraðilar gátu hafið undirbúning fyrir sjókvíaeldi hvar sem er við strendur Íslands fyrir utan skilgreind friðunarsvæði. Um þetta segir stofnunin:

Þessi lagarammi bauð í raun upp á kapphlaup um eldissvæði sem hefur m.a. leitt af sér ágreining milli umsækjenda, ósamræmi við aðra nýtingu á viðkomandi svæðum og unnið gegn markmiðum um að heildarnýting svæða væri sem hagkvæmust. Þá voru dæmi um að ófullkomnar matstillögur og leyfisumsóknir væru sendar inn til meðferðar í stjórnsýslunni með það að markmiði að vera á undan næsta rekstraraðila.

Fyrstu lagabreytingar á löggjöf um fiskeldi áttu sér stað 2019 og þar meðal annars innleitt að ráðherra skuli ákveða hvaða firði eða hafsvæði skuli meta til burðarþols og hvenær. Hafrannsóknarstofnun gert að taka ákvörðun um skiptingu svæða þegar burðarþol væri metið. Ríkisendurskoðun segir að þetta kerfi sé enn ekki komið til framkvæmda nú fjórum árum síðar og í reynd sé óljóst hvernig því verði háttað í framtíðinni.

Nokkrar af þeim athugasemdum sem Ríkisendurskoðun gerir hafa komið fram í máli andstæðinga sjókvíaeldis á undanförnum árum. Þar meðal annars í umsögnum um Strandsvæðaskipulag Austurlands sem Skipulagsstofnun hefur nú til meðferðar.

Öll helstu meginatriði skýrslunnar má sjá hér.