Flestar skúturnar snúnar til baka

Flestar skúturnar úr siglingakeppninni Vendée Arctique eru snúnar aftur til Frakklands. Skipverjar af einni voru fluttir undir læknishendur í gærkvöldi.

Lið Banque Populaire kom í ból á Berufirði seint í gærkvöldi eftir að skúta þess var tekin í tog af þjónustubát hjá Fiskeldi Austfjarða. RÚV greinir frá að tveir skipverjar hafi verið fluttir undir læknishendur, annar með höfuðáverka, hinn með brotið rifbein.

Fremstu skúturnar tvær, sem voru komnar inn á Fáskrúðsfjörð áður en gekk í versta veðrið, fóru úr firðinum snemma í morgun og eru komnar vel suður fyrir land.

Tvær aðrar skútur eru inni á firðinum, önnur þeirra hætti keppni. Á vef keppninnar er haft eftir skipstjóra hennar að hann hafi fengið nóg eftir að hafa lent í rafmagnsvandræðum, aðalseglið slegið radarinn út og hann sjálfur meiðst. Þá hafi hann rofið innsigli vélarinnar og komið sér í var. Ein önnur skúta hætti eftir að aðalseglið eyðilagðist.

Annar skipstjóri segir frá því á vefnum að allar viðvörunarbjöllur skútu hans hafi farið í gang í einu í óveðrinu.

Alls fóru 24 skútur frá Vendée á vesturströnd Frakklands á sunnudag og ætluðu norður fyrir land. Eftir versnandi veðurspá var ákveðið að draga línu við Papey og gera hlé á keppninni. Áttu skúturnar að bíða af sér veðrið inn á Fáskrúðsfirði.

Fæstar komust nokkurn tíma þangað. Ein snéri við áður en gekk í veðrið en hinar reyndu að halda sjó. Að lokum komust nær allar yfir línuna við Papey sem breytt var í lokamark keppninnar. Náðu keppendur því að sigla 1300 sjómílur af 3500 sem ætlað var. Sem fyrr segir eru þrjár eftir við Austfirði, aðrar stefna hraðbyri aftur heim til Frakklands.

Keppnin er hluti af Vendée Global sem halda á árið 2024. Til að fá þátttökurétt þurfa liðin að klára tvær af fimm forkeppnum en keppnin nú, sem átti verða sú fyrsta til að fara norður fyrir heimskautsbaug, var ein þeirra. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.